12. janúar. 2010 11:01
Á fundi fræðslunefndar Borgarbyggðar í síðustu viku var til umræðu úrskurður mennta- og menningarmálaráðuneytisins um skólagöngu fósturbarna. Ráðuneytið gaf út með úrskurði 14. október sl. álit vegna erindis frá Barnaverndarstofu um ábyrgð sveitarfélaga á kostnaði vegna skólagöngu fósturbarna utan lögheimilissveitarfélags. Í því áliti kemur fram að viðtökusveitarfélögum beri að greiða allan hefðbundinn kostnað af skólagöngu fósturbarna sem þar dvelja tímabundið. Í sveitarfélaginu hafa að jafnaði undanfarin ár verið nokkur fósturbörn á heimilum, bæði íslensk og útlend og hefur þessi ákvörðun ráðuneytisins því mikil áhrif í Borgarbyggð.
Fræðslunefnd samþykkti ályktun til félags- og tryggingamálaráðuneytisins.
Þar mótmælir nefndin harðlega þessari túlkun mennta- og menningarmálaráðuneytisins auk þess sem hún furðar sig á ákvörðun ráðuneytisins að afla umsagnar aðeins eins sveitarfélags á málinu. “Þessi breyting felur í sér mjög íþyngjandi skyldur fyrir þau sveitarfélög sem veita þessa þjónustu og telur nefndin að hagsmunir fósturbarna hafi ekki verið hafðir að leiðarljósi við umrædda álitsgjöf. Breytingin fer gegn þeirri meginreglu að sveitarfélögum er ekki skylt að veita íbúum annarra sveitarfélaga þjónustu að kostnaðarlausu. Fræðslundefnd Borgarbyggðar skorar á félags- og tryggingamálaráðherra og Alþingi að við endurskoðun barnaverndarlaga nr. 80/2002 verði áfram virt sú meginregla að sveitarfélögum sé ekki skylt að veita íbúum annarra sveitarfélaga þjónustu að kostnaðarlausu,” segir í ályktun nefndarinnar.