Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
12. janúar. 2010 08:48

Nýr meirihluti B og D myndaður í Borgarbyggð

Samkomulag hefur tekist með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki í Borgarbyggð um myndun nýs meirihluta sem starfar fram að sveitarstjórnarkosningum í vor. Eins og kunnugt er sprakk samstarf allra flokka í sveitarfélaginu daginn fyrir gamlársdag vegna áhersluatriða við gerð fjárhagsáætlunar. Einkum var það fyrirhuguð fækkun grunnskóla sem samstaða varð ekki um þegar á hólminn var komið. Á nýja árinu hafa fulltrúar fyrrgreindra flokka átt óformlega fundi sem nú hefur leitt til þess að þeir mynda meirihluta en Borgarlisti situr einn í minnihluta í fyrsta skipti á kjörtímabilinu. Björn Bjarki Þorsteinsson verður forseti sveitarstjórnar, Sveinbjörn Eyjólfsson formaður byggðaráðs og Páll S Brynjarsson verður áfram sveitarstjóri. Saman eiga þessi flokkar 6 af 9 sveitarstjórnarfulltrúum.  Samstarfið hefur verið staðfest á fundum í báðum flokksfélögum og gert ráð fyrir að síðdegis í dag verði skrifað undir meirihlutasamstarfið.

Málefnasamningur um aðhald

Í samstarfsyfirlýsingu flokkanna kemur meðal annars fram að fulltrúar þessara framboða gera sér ljóst að sá mikli tekjusamdráttur sem sveitarfélagið hefur orðið fyrir krefjist ábyrgrar fjármálastjórnunar.  “Jafnframt blasir við frekari tekjusamdráttur árið 2011.  Þrátt fyrir þessa erfiðleika teljum við mörg tækifæri í sveitarfélaginu.  Uppbygging síðustu ára hefur skilað sterkum innviðum og með markvissum aðgerðum má snúa vörn í sókn.”

 

Þá segir í málefnasamningnum að tíminn til loka kjörtímabilsins verði einkum nýttur til eftirfarandi sex áhersluþátta:  Í fyrsta lagi markvissrar endurskipulagningar á rekstri sveitarfélagsins. Í fræðslumálum verði unnið að nauðsynlegri hagræðingu með það að markmiði að ekki verði dregið úr gæðum faglegs starfs. Í þriðja lagi verði aukið aðhald í öllum almennum rekstri og fjárfestingum. Í fjórða lagi verður stjórnsýsla sveitarfélagsins aðlöguð að gjörbreyttu ytra umhverfi. Í fimmta lagi verða stofnanir sveitarfélagsins aðstoðaðar við að ráðast í þá hagræðingu sem möguleg er og loks verður leitað leiða til eflingar atvinnulífs og sköpun nýrra starfa.

 

Hlaupumst ekki frá hálfkláruðu verki

“Það var einhugur meðal sveitarstjórnarmanna þessara tveggja flokka að ljúka kjörtímabilinu á þessum nótum. Fyrsta verk okkar verður áframhaldandi vinna við fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 en Borgarbyggð hefur frest til 21. janúar næstkomandi að ljúka þeirri vinnu. Við stefnum að á fundi sveitarstjórnar þann dag verði fjárhagsáætlun 2010 samþykkt,” sögðu þeir Sveinbjörn og Björn Bjarki í upphafi samtals sem blaðamaður Skessuhorns átti við þá í Ráðhúsi Borgarbyggðar síðdegis í gær.

 

En af hverju féll þjóðstjórn Borgarbyggðar 30. desember síðastliðinn? Þeir félagar eru fljótir til svara: “Vegna þess að fulltrúar Borgarlistans féllu frá eigin hugmyndum um niðurskurð í grunnskólum sveitarfélagsins. Um það hafði náðst bærileg sátt en skyndilega og án fyrirvara hlupu fulltrúar Borgarlistans frá því verki og þá var sjálfhætt samstarfi allra lista í sveitarstjórn,” segja bæði Bjarki og Sveinbjörn.

Aðspurðir segjast þeir ekki skilja enn hvað gerst hafi en eftir þessa uppákomu í sveitarstjórn hafi strax verið ljóst að fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þyrftu að ná saman því sveitarfélaginu þyrfti jú áfram að stjórna þótt skammt væri til kosninga í lok maí. “Við hlaupum ekki frá hálfkláruðu verki þótt verkefnin hafi vissulega oft verið skemmtilegri og auðveldari viðureignar,” bæta þeir við.

 

En liggur þá ekki beinast við að oddvitar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fylgi eftir þeirri tillögu sem varð til þess að þjóðstjórn Borgarbyggðar sprakk í lok ársins? “Sú samþykkt sem gerð var í byggðaráði 6. janúar síðastliðinn útilokar ekkert af þeim hugmyndum um niðurskurð sem komið hafa fram frá því í haust. Við höfum gefið okkur frest allt til 21. febrúar næstkomandi til að leggja fram endanlega tilllögur um sparnað í fræðslumálum. Fram að þeim tíma verðum öllum steinum velt við í leit að sparnaði og auðvitað vonumst við báðir til að hægt verði að koma í veg fyrir lokun starfsstöðva, en um það viljum við ekkert fullyrða nú. Við höfum einfaldlega ekki forsendur til þess,” sögðu þeir Björn Bjarki Þorsteinsson forseti sveitarstjórnar og Sveinbjörn Eyjólfsson formaður byggðaráðs að lokum.

 

Ítarlegt viðtal við þá birtist í Skessuhorni sem kemur út á morgun.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is