13. janúar. 2010 02:22
Samkvæmt samþykkt bæjarráðs Akraness á fundi fyrir helgina verður gerð nýrra samstarfssamninga við Hvalfjarðarsveit frestað fram yfir sveitarstjórnarkosningar í vor. Rúmlega tvö ár eru liðin frá því fulltrúar Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar undirrituðu samstarfsamninga eftir að mikil vinna hafði verið lögð í samningsgerðina. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar óskaði eftir endurskoðun á samningunum á liðnu hausti þar sem að þörf væri á auknu aðhaldi í rekstri sveitarfélagsins. Á umræddum fundi bæjarráðs Akraness í liðinni viku kom fram að ráðið hafi vísað erindi Hvalfjarðarsveitar til umsagna þeirra aðila sem fara með einstök málefni samningsins milli sveitarfélaganna. Akraneskaupstaður kallaði eftir áliti vegna allra samninga. Um er að ræða samninga um fjölmörg mál, meðal annars um íþróttastarf, málefni aldraða, safnamál, brunavarnir og fleira.
„Skammt er í sveitarstjórnarkosningar og því telur bæjarráð Akraness eðlilegt að vísa endurskoðun samninganna til nýrra sveitarstjórna á næsta kjörtímabili. Umsagnir og athugasemdir fylgja bókun bæjarráðs til Hvalfjarðarsveitar,“ segir í afgreiðslu bæjarráðs Akraness.