Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
14. janúar. 2010 11:45

Fjölmennur kynningarfundur um Miðaldaböð

Um 200 manns sóttu fundinn.
Aðstandendur verkefnisins Miðaldaböð við Deildartunguhver kynntu í gærkvöldi hugmyndir og stöðu verkefnisins fyrir íbúum í uppsveitum Borgarfjarðar, þingmönnum og öðrum gestum. Fjölmenni, eða um 200 manns sótti fundinn, sem haldinn var í Logalandi. Ljóst var að íbúar eru afar áhugasamir um þetta verkefni enda yrði það ef af verður stóriðju á mælikvarða íbúafjölda í uppsveitum Borgarfjarðar. Hugmyndasmiðirnir Kjartan Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir í Landnámssetri Íslands kynntu hugmyndir um Miðaldaböð og stöðu verkefnisins. Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt fór yfir hönnun húsa og mannvirkja og Elías Árni Jónsson atvinnuráðgjafi fór yfir kostnaðaráætlun, en gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi þessa verkefni kosti um 800 milljónir króna, en fullbyggð gætu Miðaldaböð skaffað um 150 störf.

Staður með sérstöðu

Kjartan Ragnarsson sagði frá aðdraganda þess að hugmynd um Miðaldaböð við Deildartungu fæddist og hvernig hún hefur þróast síðustu tvö árin í meðförum þeirra hjóna. Nú hefur verkefnið fengið 8 milljóna króna styrk frá Tækisjóði til áframhaldandi hönnunar- og undirbúningsvinnu. Sagði Kjartan að tilfinnanlega vantaði afþreyingu og þjónustu til að stöðva för ferðamanna sem sækja Vesturland heim. Sagði hann að í landshlutanum væru nú yfir 200 þúsund gistinætur en verulega skorti á menningartengda þjónustu. Bæta þyrfti aðgengi að fjölförnum stöðum og náttúruperlum og nefndi hann Eldborg, Surtshelli, Glym, Þúfnabjarg og Deildartunguhver sem dæmi. “Hróplegasta dæmið um slæmt aðgengi er við Deildartunguhver. Þar er ekkert gert til að veita þjónustu annað en að selja þriðja flokks tómata í sjálfsafgreiðslu, sem er gott út af fyrir sig, en engan veginn nóg. Þarna er vatnsmesti hver í heimi og nú þegar sýna framreiknaðar tölur að 65-85 þúsund gestir eigi þarna viðkomu á ári hverju, án þess að þjónusta sé í boði. Þannig gefur staðurinn ákveðið forskot þegar kemur til markaðssetnngar,” sagði Kjartan.

 

Greindi hann frá því að þau fyrirtæki í ferðaþjónustu hér á landi sem væru að ganga hvað best um þessar mundir væru Jarðböðin við Mývatn og Bláa lónið á Reykjanesi sem standa fyrir hliðstæðri þjónustu og þarna verður hugsuð. “Við munum hins vegar leggja áherslu á sérstöðu sem aðrir hafa ekki. Útlendingar hafa til dæmis ekki áhuga á venjulegum, ferköntuðum sundlaugum. Þær geta þeir nálgast víða í heiminum. Við verðum að byggja upp stað og þjónustu með sérstöðu, þannig að ferðamaðurinn fái jákvæða upplifun og nái að mynda tengsl við náttúruna. Ef það tekst teljum við einsýnt að þarna gæti orðið um að ræða gríðarlega spennandi og vel sótt þjónustu,” sagði Kjartan.

 

Áfangaskipt verkefni

Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt lýsti frumhönnun mannvirkja og helstu áhersluatriðum í þjónustu. Sagði hún fyrirmyndir Miðaldabaða vera tekna úr héraði; Snorralaug, klettaborgir sem auðkenna héraðið, jarðhitinn og fleira. Sagði hún stuðst við byggingahefð frá miðöldum. “En það er ýmislegt sem við þurfum að tryggja. Hverinn þarf t.d. að verða aðgengilegur áfram og verður lögð alúð við gönguleiðir því ekki fara allir í böð þótt þjónustan verði komin.” Sagði hún að mannvirki hönnuð þannig að hægt verði að áfangaskipta uppbyggingunni. Í fyrsta áfanga verði byggt baðhús, þjónustukjarni, möguleiki verður til sýninga, byggt verður anddyri, minjagripasala, veitingasala, fundaaðstaða og verönd. Í öðrum áfanga verður viðbygging með dýrari þjónustukjarna og heilsulindum og í þriðja áfanga verður hótelbygging þar sem áhersla verður lögð á að gestir haldi mikilli nálægð við náttúruna. Byggingin verður að hluta til á tveimur hæðum og sagði hún að brattinn í landinu gæfi góða möguleika til þess. Gert er ráð fyrir að íbúðarhúsið í Deildartungu II verði nýtt sem hluti af aðstöðu í upphafi og jafnvel verður tenging við gróðurhúsin í Víðigerði þar sem ferðafólki gæfist kostur á að sjá ræktun þar.

 

Varfærnar áætlanir

Elías Árni Jónsson hagfræðingur hjá SSV Þróun og ráðgjöf fór yfir helstu atriði í kostnaðaráætlun. Sagði hann að gert væri ráð fyrir að fyrsti áfangi myndi kosta tæplega 800 milljónir króna og að hagnaður gæti orðið af starfseminni á fjórða ári miðað við varfærnar áætlanir. “Við leggjum upp með að hafa forsendur raunhæfar, gerum ráð fyrir háum vöxtum áfram og óvissu í gengismálum. Þá gerum við ráð fyrir að gestir Miðaldabaða gætu orðið um 55 þúsund fyrsta árið.”

Fram kom í svörum við fyrirspurnum að ekki liggur fyrir hvenær verkefnið gæti farið af hönnunarstigi yfir á framkvæmdastig. Stefnt er að því að minnsta kosti helmingur stofnkostnaðar fáist með hlutafé, en ekki er farið að ræða við fjárfesta markvisst þar sem viðskiptaáætlun þarf að vinnast meira. Sigríður Margrét Guðmundsdóttir lagði áherslu á að verkefnið væri enn skilgreint sem hugmynd í þróun en á næstu mánuðum tæki hönnun og viðskiptaáætlun á sig skýrari mynd.

Þá eru hugmyndir um að þær sýningar sem gætu orðið inni í mannvirkjum Miðaldabaða gætu verið annars vegar sýning um stjörnuhvolfið út frá goðafræði og sýning á norðurljósum. Hins vegar er áhugi fyrir að segja þarna sögu manngerðrar notkunar á heitu vatni til lífsgæða, bæði til upphitunar húsa og til baða.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is