19. janúar. 2010 09:02
Komin er út handbók um flutning á hættulegum farmi á vegum, svonefnd ADR handbók. Vinnueftirlitið gefur bókina út og er höfundur hennar Víðir Kristjánsson, deildarstjóri efna- og hollustuháttadeildar Vinnueftirlitsins. Bókin er einkum ætluð til notkunar á námskeiðum sem Vinnueftirlitið heldur fyrir bílstjóra sem sinna flutningi á hættulegum efnum á vegum landsins. Einnig geta öryggisfulltrúar, sendendur og þeir sem sinna eftirliti á flutningi hættulegra efna notað bókina sem uppflettirit við undirbúning á slíkum flutningi. Handbókin er sett þannig upp að fyrst er fjallað almennt um reglur um flutning á hættulegum farmi á vegum, skilgreiningar, undanþágur, flokkun í hættuflokka og fleira. Þá er fjallað um pökkunarákvæði, fylgiskjöl, merkingu ökutækja og fleira og í viðaukum er fjallað um varúðarmerki, hættunúmer og fleira og um reglur um flutninga um jarðgöng.