20. janúar. 2010 12:50
Undanfarnar vikur hefur nokkur umfjöllun verið um endurskipulagningu sjúkrahússþjónustunnar á suðvesturhorninu. Þessi umræða spannst í kjölfar skýrslu sem kom út í síðasta mánuði sem var afrakstur vinnu starfshóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins um þetta efni. Skýrslan heitir: Endurskipulagning sjúkrahúsþjónustu á Suðvesturhorninu. Greining á kostnaði og ábata af tilfærlu verkefna. Niðurstöður hennar eru þær að sparnaði upp á 1,5 milljarð króna megi ná með því að flytja skurð- og fæðingastarfsemi svokallaðra Kragasjúkrahúsa til Landspítala. Drjúgum hluta þessarar upphæðar hefur þegar verið náð með niðurskurði á sjúkrahúsunum ef miðað er við tölur ársins 2008. Í ítarlegri grein í Skessuhorni í dag svarar læknar við Sjúkrahúsið á Akranesi ýmsum rangfærslum sem í skýrslunni er að finna:
"Þar er m.a. að finna rangar tölur og rangfærslur sem liggja til grundvallar útreikningum. Í skýrslunni koma heldur ekki fram atriði eins og samnýting starfsfólks á minni stofnunum, nokkuð sem skekkir mjög samanburðinn við Landspítalann.
Athugasemdum vegna skýrslunnar hefur verið komið á framfæri við heilbrigðisráðuneytið. Enginn fulltrúi Kragasjúkrahúsanna var í starfshópnum og ekki var fagfólki eða stjórnendum þar gefinn kostur á að lesa yfir endanlegar töflur eða útreikninga áður en skýrslan var birt. Rétt hefði verið af höfundum að boða til kynningar á skýrslunni fyrir stjórnendur og starfsfólk sjúkrahússins hér svo tækifæri hefðu gefist til spurninga, athugasemda og ábendinga. Slík kynning hefur enn ekki farið fram á Sjúkrahúsi Akraness."
Sjá greinina í heild sinni hér á vefnum eða með því að smella HÉR.