25. janúar. 2010 11:05
Hið árlega Bárumót í sundi fór fram í Bjarnalaug á Akranesi síðastliðinn fimmtudag. Á mótinu kepptu um 60 börn á aldrinum 8 - 12 ára i 50 metra skriðsundi og 50 metra bringusundi. “Krakkarnir stóðu sig allir rosalega vel og greinilegt að margir hafa æft sig vel að undanförnu,” sagði Gunnar H Kristinsson sem sæti á í stjórn sundfélagsins. Hann segir að í lok mótsins hafi verið slegið upp pizzuveislu fyrir keppendur. Þá fengu tveir stigahæstu sundmennirnir bikara að launum, en lagður er saman árangur úr báðum sundunum. Að þessu sinni voru það þau Anna Chukwunonso Eze og Sindri Freyr Ísleifsson sem hlutu bikarana (sjá mynd), en þeir eru gefnir í minningu Báru Daníelsdóttur.