27. janúar. 2010 09:04
 |
Heba Soffía Björnsdóttir. |
Stjórn Markaðsstofu Vesturlands hefur ráðið Hebu Soffíu Björnsdóttir í starf framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Mun hún hefja störf nú í byrjun næsta mánaðar. Heba Soffía kveðst í samtali við Skessuhorn hlakka til að takast á við starfið, telur það verða skemmtilegt og að í ferðaþjónustu í landshlutanum felist mörg og spennandi tækifæri. “Ég hlakka til að vinna með því góða fólki sem ég veit að starfar í greininni. Fólk hefur séð hag í því að vinna saman undanfarin ár og það verður gaman að fá að taka þátt í uppbyggingu með því,” segir hún. Heba Soffía er fædd og uppalin í Borgarnesi en flutti burtu 16 ára þegar kom að því að sækja framhaldsskóla. Hún starfaði um árabil hjá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka en tók eftir það BA próf í sálfræði frá Háskóla Íslands.
Að því loknu réðist hún til starfa sem forstöðumaður á markaðssviði SPRON og átti meðal annars sæti í markaðsnefnd Sparisjóðsins. Þá réðist hún aftur til starfa hjá Íslandsbanka fyrst sem forstöðumaður á útibúasviði og síðar á markaðssviði.
Síðustu ár hefur Heba Soffía dvalið erlendis, meðal annars á Írlandi þar sem hún lauk meistaragráðu í vinnusálfræði frá University of Limerick. Aðspurð vonast hún til að reynsla hennar í stjórnun og markaðsmálum muni nýtast vel í nýja starfinu.
Eiginmaður Hebu Soffíu er Þorkell Þorkelsson sem nýlega lauk meistaraprófi í ljósmyndun á Bretlandi. Áður starfaði hann um tveggja áratuga skeið sem ljósmyndari hjá Morgunblaðinu en að auki hefur hann á ferli sínum unnið fjölmörg ljósmyndaverkefni víða um heim.