Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
01. febrúar. 2010 06:21

Andlát - Steingrímur Hermannsson fv. forsætisráðherra

Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, lést í morgun á heimili sínu í Garðabæ á 82. aldursári. Steingrímur var forsætisráðherra á árunum 1983 til 1987 og síðan aftur frá 1988 til 1991. Hann gegndi einnig öðrum ráðherraembættum og var m.a. seðlabankastjóri frá 1994 til 1998. Steingrímur fæddist í Reykjavík 22. júní 1928, sonur Hermanns Jónassonar alþingismanns og ráðherra og eiginkonu hans, Vigdísar Oddnýjar Steingrímsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1948 og prófi í rafmarksverkfræði frá tækniháskólanum í Chicago árið 1951. Þá lauk hann  M.Sc.-próf frá California Institute of Technology í Pasadena árið 1952. Eftir nám starfaði Steingrímur sem verkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1952—1953 og hjá Áburðarverksmiðjunni  1953—1954. Hann starfaði einnig sem verkfræðingur við Southern California Edison Company í Los Angeles 1955—1956. Hann var framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins 1957—1978.

Steingrímur var kjörinn á Alþingi 1971 fyrir Framsóknarflokkinn og sat þar til ársins 1994, fyrst fyrir Vestfjarðakjördæmi en frá 1987 fyrir Reykjaneskjördæmi. Hann var dóms- og kirkjumála- og landbúnaðarráðherra frá 1978 til 1979 og sjávarútvegs- og samgönguráðherra frá 1980 til 1983 þegar hann var skipaður forsætisráðherra. Hann tók árið 1987 við embætti utanríkisráðherra en var árið eftir forsætisráðherra á ný til 1991.

Steingrímur var formaður Framsóknarflokksins á árunum 1979 til 1994 og gegndi að auki fjölda trúnaðarstarfa og embætta. 

 

Steingrímur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Sara Jane Donovan og þau eignuðust þrjú börn: Jón Bryan, Ellen Herdísi og S. Neil. Síðari kona Steingríms var Guðlaug Edda Guðmundsdóttir. Þau eignuðust þrjú börn:  Hermann Ölvir, Hlíf og Guðmund.

 

Forsetinn minnist Steingríms

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands minnist Steingríms Hermannssonar og segir að merkum kafla í sögunni sé nú lokið.

“Með andláti Steingríms Hermannssonar lýkur merkum kafla í þjóðmálasögu Íslendinga. Í áratugi var hann í fremstu forystusveit, mótaði stefnuna á umbrotatímum og stýrði efnahagslífi þjóðarinnar fyrir um 20 árum inn í nýtt tímabil stöðugleika og hagsældar.

Áhrifin frá foreldrunum mótuðu Steingrím ríkulega, hugsjónir kynslóðarinnar sem hertist í baráttu við fátækt kreppuára og fagnaði síðan lýðveldisstofnun á Þingvöllum.

Úr foreldragarði fékk Steingrímur einnig ást sína á íslenskri náttúru, lífssýn sem varð honum eldheit hugsjón og grundvöllur framgöngu í umhverfismálum.

Við Steingrímur kynntumst ungir þegar báðir voru að hefja þátttöku í þjóðmálum og síðar urðum við samherjar í ríkisstjórn og góðir vinir.

Það voru forréttindi að fylgjast með því hvernig Steingrímur stýrði ríkisstjórn, óf saman ólík sjónarmið og tryggði að allir hlytu sóma af árangrinum.

Steingríms Hermannssonar verður lengi minnst sem mikilhæfs forsætisráðherra og hugsjónamanns sem helgaði Íslandi krafta sína.”

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is