03. febrúar. 2010 09:05
Sunnudaginn 7. febrúar verður opnuð ný sýning í Snorrastofu í Reykholti. Sýningin er frá Turku í Finnlandi og heitir „800 kílo af beinum“. Hún fjallar um dýrabein sem fundist hafa í uppgreftri í Turku og varpar ljósi á þær upplýsingar sem lesa má úr beinunum, um sögu og líf dýrsins sem þau eitt sinn báru uppi. Beinin veita bæði vineskju um dýrategundirnar og um dýrin sjálf sem einstaklinga. Hér getur verið um að ræða húsdýr, gæludýr eða villt dýr. Sýningin stendur fram á vor. Í umhverfi safnsins Aboa Vetus í Finnlandi hafa alls kyns dýrategundir lifað í gegnum tíðina. Fjöldinn verður síðan enn meiri ef teknar eru með þær dýrategundir sem maðurinn hefur haldið, sér til viðurværis, þ.e. slátrað til matar, nýtt bein þeirra, pelsa eða skinn. Þetta hefur skilið eftir sig fjölbreytt dýrabein sem liggja grafin í jarðveginum.