04. febrúar. 2010 08:04
Búnaðarsamtök Vesturlands ætla að kanna áhuga fyrir aðstoð við að koma af stað eða bæta árangur við útimatjurtarækt hjá bændum á starfssvæði þess. Ætlunin er að horfa til ræktunar á grænmeti og berjum sem ekki þarf að rækta í upphituðum gróðurhúsum til að ná viðunandi árangri. Þetta átaksverkefni í matjurtarækt kallast “Hollur er heimafenginn baggi” og getur nýst til ræktunar fyrir heimilið, ferðaþjónustu eða heimavinnslu afurða frá býlinu, svo dæmi séu tekin. Í kynningu á verkefninu í fréttabréfi BV segir að þetta gætu t.d. verið kartöflur, gulrófur, gulrætur, káltegundir, salat, spínat, lauktegundir, kryddjurtir, jarðarber og berjarunnar. Aðstoð frá Búnaðarsamtökunum felst í heimsókn snemma í apríl þar sem farið verði yfir ræktunaráform hvers og eins og bent á viðeigandi fræðsluefni.
Þá segir að þátttakandi geti sent umsjónarmanni fyrirspurnir yfir ræktunartímann. Fyrrihluta ágústmánaðar verði svo þátttakandi heimsóttur aftur, litið á árangurinn og reynt að meta hvað hefði mátt betur fara jafnframt því sem bent verði á leiðir til nýtingar og geymslu á uppskerunni eftir því sem við á.
Þeir sem vilja nýta sér þessa aðstoð þurfa að hafa samband við Árna B. Bragason hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands fyrir 20. febrúar næstkomandi. Greiða þarf þátttökugjald en ekki verður farið af stað með verkefnið nema lágmarksþátttaka náist.