05. febrúar. 2010 10:20
Snæfellingar voru gríðarsterkir þegar þeir lögðu Keflvíkingar með 20 stiga mun í IE-deildinni í gær, 106:86. Leikurinn var í Fjárhúsinu í Hólminum og með sigrinum lyfti Snæfell sér upp í þriðja sæti deildarinnar og er að auki með betri útkomu en Keflavík í innbyrðisviðureignum. Sigurinn gefur Hólmurum auknar vonir um möguleika að komast alla leið í úrslitaleik Subways bikarins, en Snæfell mætir einmitt Keflvíkingum í undanúrslitaleik suður með sjó á sunnudaginn.
Keflvíkingar fóru betur af stað og þar var Gunnar Einarsson í feikna stuði. Gestirnir leiddu með fimm stigum eftir fyrsta leikhluta en Snæfell sneri dæminu við og var komið yfir 54:50 þegar blásið var til leikhlés.
Snæfell hélt áfram að bæta stöðuna í þriðja leikhluta, komst þá mest tíu stigum yfir. Í lokakaflanum bættu Hólmarar síðan enn í gírinn og uppskáru öruggan sigur eins og fyrr segir. Hjá Snæfelli var Hlynur Bæringsson einkar öflugur með 30 stig og 17 fráköst. Sean Burton kom næstur með 28 stig og níu stoðsendingar. Sigurður Þorvaldsson skoraði 21 stig og Jón Ólafur Jónsson 18 og tók átta fráköst. Hjá Keflavík var Sigurður Þorsteinsson stigahæstur með 21 og Hörður Axel Vilhjálmsson og Gunnar Einarsson skoruðu sín hvor 16 stigin.