Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
08. febrúar. 2010 11:04

Ráðstefna um hverju búsáhaldabyltingin skilaði

Föstudaginn 12. febrúar nk. mun Háskólinn á Bifröst standa fyrir ráðstefnu í Iðnó í Reykjavíku. Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst, mun setja ráðstefnuna klukkan 13:00 og stendur dagskráin til 17:30. Ráðstefnan er opin og allir velkomnir – ekkert þátttökugjald. Þar munu fræðimenn úr hugvísindum, félagsvísindum og lögfræði velta upp þeirri spurningu hvort og þá hverju Búsáhaldabyltingin hefur skilað og jafnframt hvort að líta megi á hana sem birtingarmynd breyttra stjórnmála á Íslandi. Sex erindi verða flutt og opnar umræður í kjölfar hvers erindis. Í lok dagsins verða pallborðsumræður þar sem velt verður upp spurningum um efni erindanna. Fundarstjóri verður Eva Heiða Önnudóttir, stjórnmálafræðingur við Háskólann á Bifröst.

Fyrirlesarar verða:

 

Dr. Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. “Búsáhaldabylting? Hvaða búsáhaldabylting?”  Orðið "búsáhaldabylting" hefur ekki fasta og augljósa merkingu í hugum manna. Það torveldar nokkuð rannsókn á því hvort markmið hennar hafi náðst eða ekki. Engu að síður verður þeirri tilgátu varpað fram í erindinu að þótt skammtímamarkmið búsáhaldabyltingarinnar hafi náðst hafi vonir um viðameiri breytingar í samfélaginu brugðist, enn sem komið er.

 

Dr. Jón Ólafsson, heimsspekingur, prófessor og deildarforseti Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst. “Almenningur, alþýða, þjóð og múgur.” Þegar mótmælin voru hvað hörðust í miðbæ Reykjavíkur á síðasta ári blönduðu margir sér í leikinn sem ekki voru fastagestir í mótmælum. Þetta hafði áhrif á aðferðirnar sem beitt var, andann sem réði ríkjum og upplifun þeirra sem stóðu utan þeirra, hvort sem um var að ræða stjórnmálamenn, lögreglumenn eða einfaldlega fólk sem deildi ekki skoðunum með mótmælendum. Réttlætingin á því að kalla mótmælin byltingu stafar af þessu. Spurningin er hvort nú ári síðar sé rétt að endurmeta þetta. Í fyrirlestrinum verða settar fram nokkrar hugleiðingar um gerendur í búsáhaldabyltingunni og afdrif þeirra.

 

Dr. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. “Búsáhaldabylting: Hafa íslensk stjórnmál breyst?”

Í fyrirlestrinum fjallar Ólafur um búsáhaldabyltinguna og stuðning almennings við hana. Leitað verður svara um hvort byltingin hafi breytt einhverjum lykilþáttum íslenskra stjórnmála - eða hvort hún sé fremur birtingarmynd breyttra stjórnmála á Íslandi.

 

Bryndís Hlöðversdóttir dósent í lögfræði og deildarforseti Lagadeildar Háskólans á Bifröst. “Réttarríkið og búsáhaldabyltingin.”

Búsáhaldabyltingin ól af sér aukna lýðræðisvirkni landsmanna, sögulegur fjöldi fólks streymdi út á götur og sýndi stjórnvöldum svo um munaði þann kraft sem býr í samtakamættinum og þátttöku borgara í lýðræðisþjóðfélagi. Þetta vekur upp spurningu um í hvernig ástandi réttarríkið er í kjölfar byltingarinnar? Hvaða sjónarmið liggja að baki hugmyndinni um réttarríkið og hvernig getum við staðið vörð um þau á viðsjárverðum tímum?

 

Dr. Eiríkur Bergmann Einarsson, dósent í stjórnmálafræði og forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst. “Hvað varð um stjórnlagaþingið, persónukjörið og allar þjóðaratkvæðagreiðslurnar?”

Í búsáhaldarbyltingunni komu fram háværar kröfur um endurskoðun á stjórnskipan landsins og að reisa þyrfti nýtt Ísland á rústum þess sem hrundi með bönkunum. Smám saman urðu hugmyndir byltingarinnar að engu, stjórnmálastéttin snæddi byltingu fólksins hægt og bítandi. Á sama tíma hefur forsetinn tekið sér stöðu fyrir miðju stjórnmálanna, án þess þó að þjóðin hafi fengið tækifæri til að segja skoðun sína á þeim breytingum sem við það hafa orðið á stjórnskipan landsins. Í fyrirlestrinum verður rætt um hvernig nota megi stjórnlagaþing, persónukjör og þjóðaratkvæði til að auka aðkomu almennings að grundvallarákvörðunum um skipulag þjóðfélagsins og framþróun íslensks samfélags.

 

Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur. “Hverju hefur Búsáhaldabyltingin skilað? Meiri umræðu, minna "grillað".”

Búsáhaldabyltingin var nokkurs konar lýðræðislegt útkall á Íslandi. Í kjölfar hrunsins vaknaði þjóðin upp við þá staðreynd að lýðræði gerist ekki af sjálfu sér. Það sem meira er, lýðræðið á Íslandi var bæði vanbúið og lítt þróað. Þegar þjóðinni varð ljóst að hið illa búna og lítt þróaða lýðræði væri þó alltof dýrmætt til að láta stjórnmálastéttinni það einni eftir að sjá um þróun þess, sauð upp úr. Í erindinu verður velt upp nokkrum spurningum um það hversu raunhæft það var að gera sér á þessum tíma miklar vonir um lýðræðis- og stjórnsýsluumbætur. Rætt verður um það hvað helst hefur valdið vonbrigðum, og hvað bendir til þess að enn sé von um breytingar og umbætur. Spurningin er, hverjir eiga að koma til móts við þær vonir?

 

Pallborð skipa þau:

Ingibjörg Ingvadóttir hdl og lektor í lögfræði, Lilja Skaftadóttir kvikmyndaframleiðandi, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, Ólafur Stephensen blaðamaður og Halla Gunnarsdóttir blaðamaður.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is