Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
08. febrúar. 2010 11:39

Grunnskólum ekki lokað en sparað á öllum sviðum

Á fundi byggðaráðs Borgarbyggðar í síðustu viku voru skólamál til umræðu. Oddvitar meirihlutaflokkanna, Björn Bjarki Þorsteinsson Sjálfstæðisflokki og Sveinbjörn Eyjólfsson Framsóknarflokki lögðu fram bókun um skólamál sem var samþykkt samhljóða, þar sem Finnbogi Rögnvaldsson oddviti Borgarlistann fagnaði henni með sérstakri bókun. Með þessari bókun er búið að eyða óvissu um framtíð grunnskóla í sveitarfélaginu, að minnsta kosti út þetta kjörtímabil. Samkvæmt henni er fallið frá hugmyndum um lokun starfsstöðva grunnskóla. Í stað þess á að ná fram lækkun kostnaðar með því að dregið verður úr fjárveitingum til allra starfsstöðva grunnskólanna samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Þá verður viðmiðunum um fjölda nemenda í bekkjum breytt og það hækkað, samkennsla verður aukin og stöðugildum fækkað. Varmalandsskóli og Grunnskóli Borgarfjarðar verða sameinaðir undir eina stjórn og fimmti bekkur á Hvanneyri verður fluttur að Kleppjárnsreykjum.

Þá hefur verið samið við Eyja – og Miklaholtshrepp um slit á byggðasamlagi um Laugargerðisskóla og gerður þjónustusamningur við sveitarfélagið um skólavist barna úr Kolbeinsstaðarhreppi.

 

Í bókun byggðaráðs segir að miklar upplýsingar liggi nú fyrir um rekstur grunnskóla í sveitarfélaginu.  Þær upplýsingar ásamt öðrum gögnum verða dregnar saman í heilstæða skýrslu og hún nýtt í umræðu um skipulag skólamála í Borgarbyggð þar sem m.a. þarf að ræða gæði skólastarfs, hagræðingu í rekstri stofnana, áhrif hugsanlegra breytinga á samfélagið, samvinnu skólastofnana hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli og samspil skólastiga.

 

Í inngangi að bókuninni segir: “Undanfarið hafa verið til umræðu í sveitarstjórn Borgarbyggðar mögulegar hagræðingarleiðir í rekstri grunnskóla sveitarfélagsins.  Sú vinna hefur leitt í ljós að umtalsverðum sparnaði má ná með lokun starfsstöðva án þess að sá sparnaður bitni á faglegu skólastarfi. Á sama hátt má með töluverðum breytingum reka allar starfsstöðvar áfram en þá verður að fjölga nemendum í bekkjum, auka samkennslu og spara enn frekar í mannahaldi, þjónustu og vörukaupum. Ákvörðun um lokun starfsstöðvar skóla myndi hafa áhrif á skipulagningu skólahalds, hagi starfsfólks og nemenda. Hagsmunir nemenda þurfa þó að vera öðru framar.  Varðandi slíka aðgerð þarf að vera skilningur og samstaða innan sveitarstjórnar og á meðal íbúa.  Hugmyndir um lokun starfsstöðva hafa einungis verið til umfjöllunar með það í huga að ná fram hagræðingu í rekstri, án þess að skerða skólastarf.  Fullur skilningur er á afstöðu íbúa varðandi þau áhrif sem talin eru fylgja lokun á nærumhverfi viðkomandi skóla.”

 

Loks segir að í ljósi þeirrar vinnu og umræðu sem undanfarna mánuði hefur verið hjá sveitarstjórn um málefni grunnskóla sé eðlilegt að unnin verði skýrsla um framtíðarhorfur í rekstri og skipulagi skólanna þar sem m.a. verði horft til rekstrar, skólahverfa og gæða skólastarfs.  Einnig verði horft til þeirra möguleika sem gætu orðið til að auðvelda nemendum úr dreifbýli aðgengi að Menntaskóla Borgarfjarðar að loknu grunnskólanámi.  Í kjölfarið þarf að fylgja fagleg umræða og umfjöllun um framtíð grunnskólahalds í Borgarbyggð.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is