12. febrúar. 2010 09:44
Gísli Marteinsson á Glaði SH var glaður í bragði þegar ljósmyndari Skessuhorns hitti hann á bryggjunni í Ólafsvík í gær. Gísli var að landa fimm tonnum af vænum þorski. “Ég get ekki annað en verið glaður í bragði. Þetta er bara ævintýri, fiskur út um allt,” sagði hann.
Vertíðin hefur verið mjög góð hjá bátum í Snæfellsbæ að undanförnu. Dragnótarbátarnir eru farnir að fá góðan afla af ýsu og þorski, þetta 12 - 17 tonn eftir daginn, en það hefur verið frekar rólegt hjá þeim síðan í haust á meðan að línu- og netabátarnir voru að fá fínan afla. Að þorskurinn og ýsan séu byrjuð að ganga á grunnið þýðir bara eitt að vertíðin er byrjuð fyrir alvöru og þá er það stóra spurninginn hversu lengi halda bátarnir út því kvótastaðan á þeim mörgum er ekki góð og dugar engan veginn ef fiskur fer að flæða um allan Breiðarfjörðinn. Nú er lítinn kvóta að fá í leigu og nánast glórulaust hvort heldur sem er þar sem leiguverðið er í skýjunum.