15. febrúar. 2010 05:07
Í dag var undirritaður samningsrammi um orkusölu Orkuveitu Reykjavíkur til kísilmálm- og sólarkísilverksmiðju, sem áformað er að reisa í Ölfusi, rétt vestan Þorlákshafnar. Í fréttatilkynningu frá OR kemur fram að væntanlegur kaupandi er Thorsil ehf, félag sem kanadíska fyrirtækið Timminco Limited og Strokkur Energy ehf stofnuðu saman um verkefnið. Timminco rekur eina kísilmálmverksmiðju í Kanada. Stjórn Timminco samþykkti samningsrammann fyrir sitt leyti í fyrri viku og stjórn Orkuveitu Reykjavíkur á fundi í dag. Síðasti áfangi í uppbyggingu verksmiðjunnar verður til framleiðslu á kísilhleifum, sem notaðir eru við gerð sólarrafhlaðna. Það er Timminco sérlega mikilvægt að geta notað umhverfisvænan orkugjafa við uppbyggingu verksmiðjunnar.
Um er að ræða sölu á 85 megavöttum til 20 ára. Afla á orkunnar frá Hverahlíðarvirkjun og er um að ræða alla framleiðslu virkjunarinnar. Umhverfismati vegna hennar er lokið. Fjármögnun hennar var tryggð að hálfu leyti með hagstæðu láni frá Evrópska fjárfestingabankanum. Það var afgreitt af hálfu bankans í nóvember síðastliðnum og var fyrsta erlenda fjármögnun sem íslenskt fyrirtæki hafði samið um frá hruni fjármálakerfisins haustið 2008. Fjárfestingin í virkjuninni nemur um 30 milljörðum króna og verður ekki ráðist í frekari framkvæmdir við hana fyrr en fjármögnun er lokið og fyrir liggur endanlegur sölusamningur á orku, segir í tilkynningunni frá OR.