16. febrúar. 2010 03:40
Eyrarrósin 2010 kom í hlut tónlistarhátíðarinnar Bræðslunnar á Borgarfirði eystra og veittu aðstandendur hennar viðurkenningunni móttöku við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðdegis í gær. Bræðurnir Áskell Heiðar og Magni Ásgeirssynir forsvarsmenn og upphafsmenn Bræðslunnar tóku við viðurkenningunni úr hendi Dorrit Moussaieff, verndara Eyrarrósarinnar. Fjölmennt var við athöfnina en auk afhendingar viðurkenninga fluttu Sigríður Thorlacius og Högni Egilsson tónlist og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Hrefna Haraldsdóttir stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík ávörpuðu viðstadda.
Þrjú verkefni voru tilnefnd til Eyrarrósarinnar að þessu sinni og kynnt sérstaklega á Bessastöðum á mánudag. Hin verkefnin tvö voru Eiríksstaðir í Haukadal og Skjaldborg, heimildarmyndahátíð á Patreksfirði. Þetta var í sjöunda sinn sem Eyrarrósin var afhent en hún er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands. Markmiðið með Eyrarrósinni er að efla fagmennsku og færni við skipulagningu menningarlífs og listviðburða á landsbyggðinni.