18. febrúar. 2010 07:04
Sigurður Þórólfsson bóndi í Innri-Fagradal í Dalabyggð hafði samband við Skessuhorn vegna fréttar um sameiningu kjördeilda í Dölum, sem birt var í blaðinu fyrir tveimur vikum. Þar var haft eftir Grími Atlasyni sveitarstjóra Dalabyggðar að sparnaður við það að leggja niður kjördeild í Tjarnarlundi í Saurbæ og sameina hana kjördeild í Búðardal, væri um 400 þúsund krónur. Sigurður í Innra-Fagradal, sem er einn þriggja fyrrverandi kjördeildarmanna í kjördeildinni í Saurbæ, segir að það hafi komið svolítið á þá þegar þeir heyrðu þessa tölu, því það væri fjarri lagi að kostnaður við kjördeildina í Tjarnarlundi hafi verið svona mikill.
Sigurður segist hafa reiknað út kostnaðinn við kjördeildina enda væri það auðvelt reiknisdæmi. Hvor um sig hafði kjördeildarmaðurinn tuttugu þúsund krónur í laun og einn dyravörður sem starfaði við kjördeildina sömu upphæð. Lauslega mætti reikna leiguna á félagsheimilinu á 40 þúsund krónur, þannig að samtals væri þá kominn kostnaður upp á 120.000 krónur. „Kjörklefa útbjuggum við sjálfir þannig að ekki var kostnaður við það og varla er kostnaðurinn mikill við að koma kjörgögnum á talningarstað. Mér skilst að ríkið hafi greitt fyrir kostnað við kjördeildina, væntanlega svipaða upphæð á hverja kjördeild til sveita, þannig að væntanlega hefur ríkið verið að borga meira en kostnaðurinn raunverulega var víðast hvar.“
Sigurður í Innri-Fagradal sagðist hafa borið þessa útreikninga undir Grím sveitarstjóra og hann ekki véfengt þá. „Mér finnst ef að verið er að spara þá á að gera það á réttum forsendum og það ætti að endurskoða kostnaðarþátttöku ríkisins við kjördeildir þannig að um raunkostnað sé að ræða. Það er að minnsta kosti ljóst að við í kjörstjórninni vorum ekki á neinum ofurlaunum. Vorum ekki það hátt metnir að aldrei höfðum við möguleika á að komast í skilanefnd bankanna,“ segir Sigurður að endingu.