17. febrúar. 2010 03:08
"Það er allt tilbúið og við eigum von á fyrsta loðnuaflanum í kvöld og bíðum bara eftir nánari tímasetningu þannig að hægt sé að boða mannskapinn til starfa. Við gerum ráð fyrir að um 30 manns vinni við loðnuhrognavinnsluna og frystinguna á sólarhring og sennilega verðum við með tvískiptar vaktir, a.m.k. til að byrja með,“ sagði Gunnar Hermannsson, vinnslustjóri í hrognavinnslu HB Granda á Akranesi á síðu fyrirtækisins í dag, en á Akranesi bíða menn nú spenntir eftir að annað hvort Ingunn AK eða Faxi RE komi með fyrsta aflann á loðnuvertíðinni. Ingunn og Faxi eru nú að loðnuveiðum úti af Garðskaga og það er því ekki langt að sigla. Að sögn Gunnars er óvíst hve mikil hrognafyllingin er í loðnunni sem fengist hefur síðasta sólarhringinn en hann segir þó að þroski hrognanna skipti meira máli en sjálf hrognafyllingin.
Á vertíðunum 2008 og 2009 var ekið með 60 til 80 tonn af loðnuhrognum frá Akranesi til Vopnafjarðar á hverjum degi sem hrognavertíðin stóð en í ljósi þess hve lítill loðnukvótinn er að þessu sinni er óvíst að þess þurfi í ár,“ sagði Gunnar á síðu HB Granda.