22. febrúar. 2010 10:15
Krabbameinsfélagið í samvinnu við Stangaveiðifélag Reykjavíkur, Veiðihornið og Veiðikortið hefur kynnt fluguhnýtingarkeppni þar sem landsmenn geta sent inn tillögu að bestu silungsveiðiflugunni. Glæsileg verðlaun eru í boði fyrir þær flugur sem lenda í þremur efstu sætunum í tveimur flokkum; almennum flokki og unglingaflokki (16 ára og yngri). Meðal verðlauna má nefna veiðileyfi í Laxá í Laxárdal, flugustangir og fleira. Dómnefnd mun ákveða hvaða flugur bera sigur úr býtum. Þær verða að vera hannaðar og hnýttar af þátttakendum, en keppnin er opin öllum. Unglingum er frjálst að taka þátt í almennum flokki en hver keppandi getur einungis keppt í einum flokki. Keppanda er frjálst að senda inn ótakmarkaðan fjölda flugna.
Með þátttöku samþykkir keppandinn að flugan verði eign Krabbameinsfélags Íslands og verður vinningsflugan fjöldaframleidd og seld til fjáröflunar fyrir félagið og ráðstafað á þann hátt er félagið kýs best. Fluga í keppnina þarf að berast Krabbameinsfélaginu að Skógarhlíð 8, 105 Reykjavík, eigi síðar en 19. mars nk. Frekari upplýsingar veitir Gústaf Gústafsson Krabbameinsfélagi Íslands, síma 540-1926 og 662-4156 og gustaf@krabb.is
-fréttatilkynning