25. febrúar. 2010 08:04
Fyrir tæpum fjörutíu árum, nánar tiltekið um verslunarmannahelgina 1971, stóðu á hljómsveitapallinum á útihátíðinni í Húsafelli stoltir ungir piltar úr Stykkishólmi. Þeir kölluðu sig því frumlega nafni Óvera og þótt nafngiftin væri í sjálfu sér ekki aðlagandi, slógu þeir í gegn drengirnir og Óvera var kosin unglingahljómsveit ársins það sumarið. Fetaði þar í fótspor margra upprennandi hljómsveita sem síðar gerðu garðinn frægan. Einn piltanna úr Óveru hefur síðustu árin verið einn helsti skóla- og uppeldisleiðtogi í Hólminum, Gunnar Svanlaugsson skólastjóri. Í viðtali sem birtist við Gunnar í Skessuhorni vikunnar fer kappinn yfir eitt og annað frá skólagöngu sinni, fyrstu kennsluárin við Héraðsskólann í Reykholti, áður en hann fór aftur á heimaslóðir, tók þátt í pólitík en hætti afskiptum þar því það samrýmdist ekki skólastjórastarfinu. Á gagnfræðaskólaárunum í Hólminum var Gunnar í skólahljómsveitinni Saxar sem seinna breytti um nafn og varð unglingahljómsveitin Óvera.
Gætuð þið notað mig núna?
„Með mér í hljómsveitinni voru Hinni Axels bassaleikari, Raggi Berg gítarleikarar og Gunnar Ingvarsson á trommur, flottir hljóðfæraleikarar. Það var svona léttur fíflagangur í okkur á köflum og við ákváðum einu sinni að auglýsa eftir auka hljóðfæraleikara í hljómsveitina. Það hafði samband við okkur piltur úr Dölunum, Tómar R. Einarsson að nafni. Við ákváðum að það væri frekar vonlast að Dalamaður passaði inn í rithmann og strákurinn líka ekki alveg nógu poppaður fyrir Hólmarana. Seinna átti svo Tómas eftir að verða miklu frægari en við. Ég hef farið á tónleika með hljómsveit Tómasar og eitt sinni skaut hann því að mér í gamansömum tón. „Gunni, heldurðu að þið gætuð notað mig núna?““
Sjá ítarlegt viðtal við Gunnar Svanlaugsson í Skessuhorni vikunnar.