01. mars. 2010 09:04
 |
Borgarbyggð fær hæsta framlag vestlenskra sveitarfélaga. |
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga mun úthluta rúmlega tveimur og hálfum milljarði til sveitarfélaga á þessu ári. Heildarfjárþörf sveitarfélaganna er rúmur fjórir og hálfur milljarður samkvæmt því sem fram kemur um úthlutun ráðgjafarnefndarinnar. Greiðslur Jöfnunarsjóðs eru til jöfnunar á tekjutapi einstakra sveitarfélaga á þessu ári vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti. Var tekið mið af nýju fasteignamati frá 31. desember við tillögugerðina. Mest fær Reykjanesbær, eða 251 milljón, 244 milljónir fara til Akureyrar, 136 milljónir til Fjarðabyggðar og 121 milljón til Ísafjarðarbæjar. Af stærstu framlögum til sveitarfélaga á Vesturlandi fær Borgarbyggð 80,3 milljónir, Akraneskaupstaður 65,1 milljón, Snæfellsbær 50 milljónir, Stykkishólmsbær 27,8 milljónir, Dalabyggð 22,5 milljónir, Grundarfjarðarbær 17,1 milljón og Hvalfjarðarsveit 15,5 milljónir.