05. mars. 2010 03:04
 |
Atriði úr myndinni Little Penis, sem sýnd verður á hátíðinni |
Frá deginum í dag og til sunnudags stendur kvikmyndahátíðin Northern Wave yfr í Samkomhúsi Grundarfjarðar. Hátíðin verður sett klukkan 17 í dag. Þá hefst þétt dagskrá. Á morgun verður svo fiskisúpukeppnin sem haldin er í fyrsta skipti í ár en með henni ætla Grundfirðingar að sýna gestum hátíðarinnar gestrisni og kynna um leið frábært fiskmeti. Landsliðskokkurinn Hrefna Rósa Sætran verður viðstödd keppnina og dæmir um bestu súpuna. Listamaðurinn Humanizer spilar tónlist með karabísku ívafi og sýnir myndverk og boðið verður upp á snafsa til að halda hita í fólki.
Frítt er inn á súpukeppnina sem og alla viðburði hátíðarinnar en nóg verður um að vera í Grundarfirði næstu daga. Sýndar verða 60 stuttmyndir og 25 tónlistarmyndbönd frá 20 löndum og boðið upp á tónleika bæði í kvöld og laugardagsköld á Kaffi 59. Hin margverðlaunaða kvikmyndagerðarkona og klippari, Valdís Óskarsdóttir, kemur með brot úr nýjustu mynd sinni “Kóngavegi 7” og spjallar við gesti á morgun. Í samkomhúsi Grundarfjarðar verður svo kaffihús og notalegt að fá sér hressingu þar meðan hægt verður að horfa á stuttar myndir frá fjarlægum löndum.
Dögg Mósesdóttir skipuleggjandi hátíðarinnar segir hana og aðra Grundfirðinga bjóða Vestlendinga sérstaklega velkomna á hátíðina.