Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
10. mars. 2010 10:04

Fjörleg sýning fjölbrautanema

Síðastliðinn laugardag frumsýndi leikklúbbur Nemendafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands nýtt íslenskt gamanleikrit sem nefnist Karókí. Félagið leitaði til heimamannanna Einars Viðarssonar og Gunnars Sturlu Hervarssonar sem tóku að sér að semja verkið ásamt því að leikstýra því. Auk þess að vera fullt af gríni, dans og hröðum og skemmtilegum leik, er mikil tónlist í verkinu.  Stór hluti tónlistarinnar er eftir meðlimi í hljómsveitinni Cosmic Call en hún er skipuð þeim Sigurmoni, Fjölni, Pétri, Bergþóru og Ásu Katrínu. Allir meðlimir hljómsveitarinnar eru eða hafa verið nemendur í Fjölbrautaskóla Vesturlands og þess vegna fannst leikstjórum verksins tilvalið að fá þau til liðs við leikhópinn og semja tónlistina. Titillagið sömdu höfundarnir sjálfir en Cosmic Call útsetti.

Karókí gerist í litlu þorpi úti á landi. Aðalsöguhetjan er lítill drengur, Kiddi Karókí en hann er sonur eiganda skemmtistaðarins sem jafnframt er heimili fjölskyldunnar. Þetta heimili er talsvert brotið; móðirin drykkfelld og faðirinn stingur af til fjarlægra landa þegar Kiddi er 10 ára. Þegar Kiddi er 17 ára birtist faðir hans aftur með rússneskan kaupahéðin með sér sem hyggst kaupa skemmtistaðinn. Viðskipti Rússans og “hiskis” hans og væntanleg sala skemmtistaðarins sem breyta á í slöbbstaðinn Víti, fara illa í þorpsbúa sem vandir eru að virðingu sinni. Úr þessu öllu verður mikill farsi þar sem hlutirnir gerast hratt þar sem presturinn, sóknarnefndarkonurnar, unga fólkið í bænum, fjölskylda Kidda og ýmsir fleiri koma við sögu.

 

Fyrir gestinn á frumsýningu Karókí birtist agaður og flottur leikhópur í leikfélagi NFFA. Mér er til efs að svo vönduð og fjölbreytt sýning hafi í senn verið samin, æfð og frumflutt með jafn metnaðarfullum hætti af hálfu nemendafélags um langa hríð. Óhætt er að segja að leikgleðin hafi skinið úr hverju andliti. Allir voru með hlutverk sín og texta á hreinu og aldrei varð ég var við að hvísla hefði þurft í öllu verkinu. Leikarar stóðu sig með sóma og var ágætlega skipt niður í hlutverk. Að öllum öðrum ólöstuðum fannst mér þó leikur Fjölnis Gíslasonar í hlutverki Kidda yngri skara framúr. Góð framsögn, skemmtileg svipbrigði og öryggi einkenndi leik hans. Margir aðrir voru þó að gera góða hluti. Nefna má Kristján Gauta Karlsson í hlutverki Raspótíns, sem og leik Helgu Haraldsdóttur í hlutverki Volgu Olgu og Kidda eldri sem Aron Daníelsson lék. En það er samt hálf ósanngjarnt að taka fáa út úr, því sýningin var ágætlega samhæfð, rann ljúflega, skreytt með dansatriðum og tónlist öðru hverju og svo náttúrlega snilldar brandörum sem gáfu kryddið sem þurfti.

 

Ég óska nemendafélaginu til hamingju með glæsilega sýningu og hvet fólk til að láta þessa sýningu ekki framhjá sér fara, en sýnt er í Bíóhöllinni nokkuð þétt næstu daga. Næsta sýningar verða fimmtudagskvöld, föstudagskvöld og sunnudag.

 

-mm

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is