10. mars. 2010 04:02
Stærðfræðikeppni grunnskólanna á Vesturlandi hófst í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi kl. 15 í dag. Ríflega 130 nemendur úr 8., 9. og 10. bekk frá níu grunnskólum taka þátt í keppninni sem stendur yfir í eina og hálfa klukkustund. Hörður Helgason, skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands, sagði við setningu keppninnar að Vesturland væri í flestra huga svæðið frá Hvalfjarðarbotni í Gilsfjarðarbotn. “Við reynum hins vegar alltaf að stækka Vesturland og nú eru hér nemendur af stór-Vesturlandi eða frá Hvalfirði að Reykhólum og Hólmavík. Ég býð ykkur öll velkomin hingað í skólann og hvet ykkur öll til að gera ykkar besta í að leysa stærðfræðiþrautirnar,” sagði Hörður um leið og hann sagði keppnina setta.
Skólarnir sem taka þátt í stærðfræðikeppninni eru: Brekkubæjarskóli og Grundaskóli á Akranesi, Reykhólaskóli, Grunnskóli Borgarfjarðar, Grunnskólinn í Borgarnesi, Heiðarskóli, Grunnskólinn á Hólmavík, Auðarskóli í Dalabyggð og Laugargerðisskóli. Að lokinni keppninni verður keppendum og kennurum boðið upp á veitingar í boði Norðuráls, sem styrkir hana. Úrslit í keppninni verða svo tilkynnt með viðhöfn eftir einn mánuð.