11. mars. 2010 10:22
Í fyrrakvöld fundust fíkniefni innvortis á farþega fólksbíls á leið norður í land sem lögreglan í Borgarfirði og Dölum stöðvaði við Borgarfjarðarbrúna. Þegar bíllinn hafði verið stöðvaður kom í ljós að ökumaðurinn var undir áhrifum fíkniefna og þótti því lögreglu ástæða til að gera frekari fíkniefnaleit. Fíkniefnahundurinn Tíri gaf strax ákveðnar ábendingar um farþegann en sá neitaði lögreglunni um heimild til líkamsleitar. Slíka heimild fékk lögreglan strax hjá Héraðsdómi Vesturlands en farþeginn áfrýjaði til Hæstaréttar sem staðfesti heimildina í gær. Við líkamsleit fundust síðan 60 grömm af fíkniefnum innvortis á farþeganum sem talið er að sé amfetamín. Ferlið við að ná til fíkniefnanna tók því einn sólarhring og meðan á því stóð var farþeginn fluttur til Reykjavíkur, þar sem líkamsleitin var gerð.
Theodór Þórðarson yfirlögregluþjónn segir að Tíri hafi áður fundið fíkniefni sem falin hafi verið innvortis en þetta dæmi sýni að eftirlit lögreglu sé að virka og hræða fólk. Aðferðir þess til að flytja fíkniefna milli landshluta líkist æ meir þeim aðferðum sem notaðar eru til að flytja þau milli landa. “Það er því gífurlega mikils virði fyrir okkur að hafa svona þefvís dýr eins og Tíra til aðstoðar því fólk er greinilega farið að gera allt til að komast með fíkniefnin hér í gegn hjá okkur,” sagði Theodór.