12. mars. 2010 03:01
Í fyrrakvöld var sagt frá því í kvöldfréttum Stöðvar2 að farið var með laskaðan örn sem fangaður var í fyrrahaust við Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi í skurðaðgerð á dýraspítalanum í Víðidal. Örninn hefur verið í umsjá Húsdýragarðsins og Náttúrufræðistofnunar undanfarna mánuði. “Fuglinn var merkur sem ungi á hreiðri á Mýrum sumarið 2004 en heimilisfólkið í Bjarnarhöfn fann hann laskaðan við Bjarnarhafnarfjall undir lok september í fyrra. Starfsmenn Náttúrustofu Vesturlands sóttu fuglinn og komu honum í hendur Kristins Hauks Skarphéðinssonar, arnarsérfræðings Náttúrufræðistofnunar Íslands,” segir á vef Náttúrustofu Vesturlands.
Fyrr í vikunni var farið með fuglinn í skoðun á dýraspítalann í Víðidal þar sem í ljós kom vökvafyllt kýli við vænglið, sem var tæmt og hreinsað. Síðan í haust hefur örninn dvalið í Húsdýragarðinum án þess að sýna umtalsverðar framfarir. “Því var ákveðið að láta dýralækni gera úrslitatilraun til að hjálpa erninum. Liðurinn var enn bólginn og við röntgenmyndun kom í ljós það sem virtist vera aðskotahlutur í liðnum. Skorið var á kýlið og liðurinn hreinsaður. Næstu daga verður örninn hafður á sýklalyfjakúr til að fyrirbyggja frekari sýkingu. Skemmdir gætu þó hafa orðið á liðnum svo óvíst er um batahorfur.”
Sjá nánar á www.nsv.is