Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
12. mars. 2010 12:04

Stál í stál í kjaraviðræðum Norðuráls og VLFA

Lítið hefur miðað í samningaátt í kjaraviðræðum Verkalýðsfélags Akraness og Norðuráls sem staðið hafa yfir hjá ríkissáttasemjara að undanförnu. Nú þegar hafa þrír sáttafundir verið haldnir og sá fjórði verður á mánudag. Ríkissáttasemjari setti samninganefndum fyrir heimaverkefni fyrir þann fund. Skessuhorn kannaði hjá deilendum hver staðan væri og þar stangast fullyrðingar á. Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness segir kjör starfsmanna Norðuráls vera mun lægri en sambærileg störf í Straumsvík. Ágúst Hafberg, framkvæmdastjóri viðiskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli segir fullan hug hjá fyrirtækinu að ljúka gerð samninga sem fyrst.  Hann segir orð Vilhjálms ekki standast, heildarlaun starfsmanna Norðuráls séu hærri en starfsmanna í Straumsvík. Ágúst upplýsir jafnframt að tap hafi verið á rekstri Norðuráls árið 2009, en Vilhjálmur hefur haldið því fram að 20 milljarða hagnaður hafi orðið á starfseminni. Hér mætast því stálin stinn í kjaradeilu starfsmanna Norðuráls við fyrirtækið.

Formaður VLFA segir skorta á samningsvilja

“Það er bara enginn samningsvilji hjá forsvarsmönnum Norðuráls,” segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness í samtali við Skessuhorn en samningafundir félagsins hjá ríkissáttasemjara að undanförnu vegna launakjara starfsmanna Norðuráls á Grundartanga hafa engan árangur borið. “Okkar krafa er einföld og hún er að starfsmenn Norðuráls fái sömu kjör og starfsmenn Alcan í Straumsvík hafa. Á þessum stöðum er mismunandi vaktafyrirkomulag og að baki mánaðarlaun hjá Norðuráli eru 182 vinnustundir en 145,6 hjá Alcan. Norðurál borgar hins vegar 26 tíma í fasta yfirvinnu og forsvarsmenn Norðuráls halda því fram að þar séu greidd hærri laun. Eftir að hafa reiknað út einingaverð á hverja vinnustund er ljóst að starfsmenn Norðuráls eru með tugum þúsunda króna lægri laun á mánuði en starfsmenn Alcan,” segir Vilhjálmur.

 

Hann segir ljóst að þegar samningar hafi verið gerðir í upphafi árið 1998 hafi verið gefið of mikið eftir í samningum við Norðurál. “Menn gáfu of mikið eftir. Sáu þarna ný atvinnutækifæri sem þeir vildu auðvitað fá og hreinlega sömdu af sér í kjölfarið. Þessi mismunur hefur verið alla tíð.” Vilhjálmur segir ljóst að ekki sé hægt að sækja launahækkanir til fyrirtækja sem séu með báða vasa tóma en þannig sé ekki ástandið hjá Norðuráli. “Fyrirtækið hefur verið að hagnast vel og samkvæmt ársreikningum nam veltan 47 milljörðum króna árið 2008 og hagnaðurinn varð 16 milljarðar. Veltan nam 58 milljörðum á síðasta ári og ef hagnaður er í sama hlutfalli og árið áður ætti hann að hafa verið 20 milljarðar króna. Það er ekkert óeðlilegt að starfsfólk fái einhverja hlutdeild í þessu, sérstaklega þar sem það er með lægra kaup en fólk í sambærilegum störfum í Straumsvík,” segir Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA.

 

Óraunhæfar kröfur

Ágúst F. Hafberg, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli, segir í samtali við Skessuhorn að Norðurál hafi fullan hug á að ljúka kjaraviðræðum sem allra fyrst og bendir á að þær viðræður fari fram þessa dagana hjá sáttasemjara. “Hins vegar eru kröfur formanns Verkalýðsfélags Akraness alveg úr takti við íslenskan raunveruleika því heildarlaun starfsmanna Norðuráls eru hærri en starfsmanna í Straumsvík. Formaðurinn er að fara fram á launahækkanir sem eru yfir 20% og allir sjá að það eru óraunhæfar kröfur.”

 

Tap af rekstri Norðuráls á síðasta ári

Ágúst segir ályktanir formanns Verkalýðsfélags Akraness um að Norðurál hafi hagnast um 20 milljarða á síðasta ári vera út í hött. “Hann veit greinilega ekkert um hvað hann er að tala þegar hann ræðir rekstur Norðuráls. Álverð var mjög lágt á síðasta ári og árið 2009 varð eitt erfiðasta árið í rekstri Norðuráls frá upphafi og það varð tap af rekstri Norðuráls á síðasta ári,” segir Ágúst. Hann segir Norðurál hafa lagt sig fram um að viðhalda atvinnu á Grundartanga og þótt grípa hafi þurft til mikilla hagræðingaraðgerða þegar álverð féll á síðasta ári þá hafi starfsfólki fjölgað á sama tíma. “Engar arðgreiðslur hafa ennþá verið greiddar til núverandi eigenda Norðuráls, sem keyptu fyrirtækið árið 2004, því allir fjármunir sem komið hafa frá rekstrinum hafa verið nýttir til uppbyggingar á Íslandi,” segir Ágúst F. Hafberg.

Ágúst Hafberg....
- 14.3.2010 15:44:56 er úr takti við raunveruleikann, hann gleymir alveg að nefna það að starfsmenn ker og steypuskála Norðuráls vinna amk 24 yfirvinnutíma í mánuði sem eru inní í 12 tíma vaktakerfinu, þess vegna eru heildarlaun starfsmanna NA hærri, hann gleymir alveg að nefna að munurinn á 1.árs grunntaksta iðnaðarmanna er ca. 36.000 kr. á mánuði, Straumsvík í vil..... Heildarlaun eru aldrei það sem miða á við í kjarasamningum, yfirvinna er ekki samningsmál.
Ragnar Guðmundsson.....
Norðurál
er að fá meira í isk. fyrir 1. tonn af áli í dag en þeir fengu árin 2007 og 2008, þá var tonnið á ca. 3000 USD og gengið um 60 kall, þ.e. ca. 180þ fyrir tonnið af áli í ísk. Í dag er tonnið á ca. 1800 usd og gengið um 128 kr. sem gefur um 230þ tonnið..... launavelta NA á Grundartanga er ca. 5,7% af heildarveltu, það tekur tæpa 2 sólarhringa að framleiða ál fyrir einum mánaðarlaunum allra starfsmanna, ef laun yrðu hækkuð í samræmi við Straumsvík fer launakostnaður uppí rúm 7%. Ef það er ekki hægt að reka fyrirtæki á þessum forsemdum er sennilega rétt að loka bara strax og selja orkuna einhverjum öðrum sem kunna að reka fyrirtæki.
Gunnar Guð.
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is