16. mars. 2010 07:04
Stækkun og endurbætur á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi hafa nú þegar verið settar í lokað útboð. “Þetta þýðir í raun að við veljum þá sem fá að bjóða í þetta verk,” segir Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Höfða í samtali við Skessuhorn. Hann segir sex fyrirtækjum á Akranesi og í nágrenni hafa verið gefinn kostur á að bjóða í verkið en þau hefðu öll lýst áhuga á því og reiknað væri með að 3-4 tilboð komi. “Ég býst við að einhverjir þeir smærri sameinist um tilboð en það verður haldinn fundur með forsvarsmönnum allra þessara fyrirtækja í næstu viku og þá skýrist þetta betur.”
Guðjón segir ekkert banna það að bjóða þetta verk eingöngu út á heimamarkaði og að í einu og öllu sé farið eftir íslenskum staðli, ÍST 30, í þeim efnum. Útboðsferlið á að taka stuttan tíma og Guðjón reiknar með að hægt verði að opna tilboð í aprílmánuði og hefja framkvæmdir upp úr því.