Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Náttmál. Fyrsti Óðinsdagur í Haustmánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Smáauglýsingar

TIL SÖLU

Landcruser 90 árg.2000 ekinn 300þús. Sjálfsk. upphækkaður /33"dekk skoðaur 2021 Góður bíll- en r...
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
23. nóvember 2014 13:38

Ég geri athugasemdir

….við þá breytingu á aðalskipulagi sem nú liggur fyrir vegna skotæfingasvæðis í landi Hamars og komin er í lýsingu.

 

Mér finnst þessi breyting ekki vera í samræmi aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022. Breytingin er á skjön við Leiðarljós – framtíðarsýn aðalskipulagsins en það er m.a. að efla fjölbreytt mannlíf og atvinnulíf í fögru, heilbrigðu og hreinu umhverfi. Jafnframt er það ekki í anda meginmarkmiðs skipulagsins en það er m.a. að tekin skulu mið af sjálfbærri þróun við skipulag og uppbyggingu sveitarfélagsins og taka skuli sérstakt tillit til umhverfis‐ og náttúruverndar við skipulag og þróun svæða. Jafnframt því mun þessi breyting eyðileggja náttúruupplifun fólks í fólkvanginum og draga úr öryggistilfinningu þeirra sem fólkvanginn sækja.

 

 

Fólkvangurinn Einkunnir var stofnaður í maí 2006. Markmiðið með friðlýsingu svæðisins Einkunna sem fólkvangs var að vernda jarðmyndanir og votlendi í þágu útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu. Frá stofnun hefur markviss uppbygging verið á svæðinu með það að markmiði að gera fólkvanginn sem aðgengilegast fyrir almenning. Hér má nefna að stígar hafa verið lagðir (tæpir 20 km) þeir stikaðir og sett kurl í þá að hluta, opnuð rjóður með bekkjum og borðum, og salernisaðstöðu komið upp. Einnig hefur útsýnisskífu verið komið fyrir, landnámsvarða hlaðin, bryggja byggð í Álatjörn og lagður að henni stígur með bundnum slitlagi. Reiðvegur liggur í gegnum fólkvanginn og hestagerði er staðsett á fallegum stað í Litlu-Einkunnum. Umferð útivistarfólks í fólkvanginn hefur aukist með hverju árinu sem liðið hefur. Innan fólkvangsins er Skátafélag Borgarnes með skálann sinn Flugu sem skátarnir nýta allt árið fyrir starfsemi sína og eru m.a. með kanóa á Álatjörn. Umferð um tjörnina á vetrum hefur aukist til skautaferða og útreiða.

Í blaðaviðtali sem Reynir Ingbjartsson veitti við útgáfu bókar sinnar 25 gönguleiðir um Borgarfjörð og Dali sagði hann að það svæði sem kom honum mest á óvart og hann hreifst mest af í Borgarfirði og Dölum hafi verið Einkunnir.

Fyrirhugað er að staðsetja skotæfingasvæði við hliðina á fólkvanginum Einkunnum. Ég vil fyrst vekja athygli á nokkrum staðreyndum. Það verður:

  • 150 m frá riffilbraut að fólkvangsmörkum.
  • rúm 1200 m skotlína/loftlína frá riffilbraut að næstu íbúabyggð.
  • 600 skotlína/loftlína frá riffilbraut að göngustíg sem liggur á milli Álatjarnar og Háfsvatns.
  • 1200 m skotlína/loftlína frá riffilbraut að nýlögðum göngustíg á milli Borgar og Einkunna.
  • um 2000 m skotlína/loftlína frá riffilbraut að útsýnisskífu á Syðri-Einkunn.
  • um 1000 m skotlína/loftlína frá riffilbraut að skátaskálanum Flugu.
  • 800 m frá riffilbraut að fjölförnum reiðveg/akveg/gönguleið sem liggur í Einkunnir.
  • 800 m frá riffilbraut að Álatjörn.

Til fróðleiks má geta þess að langdrægir rifflar draga meira en 10.000 m.

 

Það munu heyrast skothvellir frá æfingasvæðinu sem koma til með að skerða náttúruupplifun fólks í fólkvanginum og fæla fólk frá því að koma í fólkvanginn til að upplifa kyrrð, fuglasöng og náttúruhljóð. Ég óttast að skothljóðin komi einnig til með að fæla fugla af svæðinu en það hefur verið merkjanleg aukning í fjölda fugla sem sækja í fólkvanginn í ætisleit og til varps. Skotæfingasvæðið mun skerða það öryggi sem fólk hefur fram til þessa geta treyst á. Útivistarfólk, skátar og skólabörn verða að geta verið örugg í leik og starfi í fólkvanginum. Slys gera ekki boð á undan sér.

Svæðið sem slíkt er illa til þess fallið að setja þessi mannvirki þar niður. Það þarf að leggja nýjan veg að skotæfingasvæðinu, yfir mýrar og holt. Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir kostnaðaráætlun þessara framkvæmda. Kunnugir segja mér að kostnaður við vegaframkvæmdir verði ekki undir 20 milljónum. Gerð skotæfingasvæðisins, s.s. jarðvegsskipti, manir og önnur mannvirki muni kosta meira en 30 milljónir. Framkvæmdin í heild sinni fari líklega ekki undir 50 milljónir og þann kostnað mun sveitarfélagið bera að stærstum hluta.

Það má geta þess að sveitarfélagið Borgarbyggð er stórt og víðfemt sveitarfélag eða 4.926 ferkílómetrar að stærð og til samanburðar þá eru Færeyjar 1.396 ferkílómetrar að stærð! Borgarbyggð er því rúmlega þrisvar sinnum stærra að flatarmáli en Færeyjar. Ég trúi ekki öðru en sveitarstjórn Borgarbyggðar geti í góðu samstarfi við íbúa sveitarfélagsins fundið æfingasvæði fyrir okkur byssueigendur og skotveiðimenn til æfinga sem sátt ríkir um. Það er brýnt að við byssueigendur fáum slíka aðstöðu. Það mun aldrei ríkja sátt um skotæfingasvæðið á þessum stað.

Að lokum vil ég hvetja íbúa Borgarbyggðar og útivistarfólk til að kynna sér lýsingu á breytingu á aðalskipulagi sem nú liggur fyrir vegna skotæfingasvæðis í landi Hamars. Hægt er að nálgast gögn á heimasíðu Borgarbyggðar og í ráðhúsi Borgarbyggðar. Athugasemdir eða ábendingar skulu vera skriflegar og berast skipulagsfulltrúa í síðasta lagi 1. desember 2014 annað hvort í Ráðhús Borgarbyggðar, Borgarbraut 14, 310 Borgarnes eða á netfangið lulu@borgarbyggd.is.

 

Hilmar Már Arason, íbúi í Borgarbyggð

 

 

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is