Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
1. október 2015 10:01

Sameinaðir og sundraðir

Fyrir 13 árum settist ég í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Ekki veit ég hvaða erindi ég átti á þeim vettvangi en reyndi að gera það gagn sem ég gæti. Mér fannst þá og finnst enn lög um þetta stjórnsýslustig um margt forneskjuleg og ófullkomin. Skrifaði meira að segja eitthvað um þetta í héraðsfréttablaðið. Það sem mér finnst helst að og fannst þarna í den er sú hugsun þingsins að skipan sveitarfélaga komi Alþingi lítið við, „frumkvæðið verður að koma frá íbúunum,“ er klisja sem örugglega hefur hrotið af vörum fleiri en eins þingmanns. Þá oftast í umræðu um sameiningu sveitarfélaga.

 

 

 

Fjárhagur sveitarfélaga

Hlutverk sveitarfélaga er ákveðið með lögum. Árið 2002 voru engar samræmdar reglur um hve mikið sveitarfélög gætu skuldað. Sveitarstjórnarmenn voru óvarðir fyrir kröfum þrýstihópa og íbúar óvarðir fyrir framkvæmdagleði kjörinna sveitarstjórnarmanna. Þessa sér víða stað í dag eftir „2007“ – hér ritað innan gæsalappa til að tákna offjárfestingu sveitarfélaga á þessari öld. Vissulega voru samræmdar reglur um fjárreiður sveitarfélaga af hinu góða þegar þær voru loks settar en í mínum huga ganga þær of skammt, 150% viðmiðunin um skuldir sveitarfélaga er auðvitað 150% af því lægri og eðlilegri viðmið væru einfaldlega óraunhæf eins og staða margra sveitarfélaga er nú.

 

Hlutverk sveitarfélaga

Það er hinsvegar í lang flestum tilvikum erfitt að sýna fram á að bágur fjárhagur standi í beinu sambandi við breytt hlutverk sveitarfélaga þó vissulega hafi flutningur grunnskólanna til sveitarfélaga frá ríki árið 1996 gert sum fámenn sveitarfélög óstarfhæf. Miklu nær er að skýra stöðuna með illa skipulögðum verkefnatilfærslum frá ríki til sveitarfélaga og tímafrekri og dýrri endurskipulagningu stjórnsýslunnar á sama tíma og eftir að stórir málaflokkar voru færðir til sveitarfélaganna. Stærstu málaflokkarnir eru rekstur grunnskóla og málefni fatlaðra. Þingið hefur heldur ekkert gert til að endurskoða brýn mál eins og lög um lausagöngu hinna ýmsu ferfætlinga, þó það snerti kannski ekki marga íbúa er núverandi skipan til þess fallin að valda árekstrum þegar hagsmunir fólks í dreifbýli verða sífellt margbreytilegri. Loks má benda á að lög um tekjustofna sveitarfélaga og stórar opinberar framkvæmdir hafa fært sumum hreppum drjúgar tekjur fáum til gagns.

Öll þessi atriði ættu að leiða mönnum fyrir sjónir að sameining sveitarfélaga með lögum hefði átt að fara fram samhliða þeim miklu breytingum sem gerðar voru á hlutverki þeirra og tekjustofnum undanfarna tvo áratugi.

 

Sameining sem sundrar

Þingið kaus semsagt að láta frumkvæðið koma frá íbúunum. Bauð peningaverðlaun fyrir flottustu sameininguna og reyndi að refsa þeim sem ekki vildu vera með. Ég held að það ástand sem uppi hefur verið í skólamálum í Borgarbyggð síðustu 10 ár endurspegli þetta nokkuð vel. Auðvitað eru deilur manna ekki Alþingi að kenna. En það hefði verið hægt að standa mun betur að sameiningunni og í stað þess að lofa öllum öllu hefði þurft að ráðast í ákveðnar – mögulega óvinsælar – breytingar samhliða sameiningu sveitarfélaga á landsvísu í stað þess að veita peningum í að binda fyrir augu kjörinna fulltrúa og snúa þeim í hringi eins og við gerðum í Borgarbyggð í sameiningunni 2006. Það voru allavega mistök.

 

Lokun skóla

Þegar deilur rísa milli manna þurfa menn að ná sáttum. Þetta þýðir ekki að deilendur þurfi að leggjast í eina sæng í kjölfar sáttagjörðar eða deila eigum sínum, bursta hver annars skó eða eta af sama diski. Kannski sem betur fer.

 

Veraldarsagan kennir okkur að stundum lánast mönnum þetta en stundum ekki. Stundum fer illa. Þegar verst lætur brjótast út stríð, fólk stráfellur, hús brenna og þeir sem eftir standa hrekjast á vergang. Blessunarlega höfum við borið gæfu til að bera klæði hvert á annars vopn síðan á söguöld er virtir skólamenn í Borgarfirði máttu eyða drjúgum stundum í sýrukeri til að standast áhlaup þeirra sem boðuðu nýjar kennsluaðferðir eða hvað þetta var nú sem rifist var um í þá tíð.

Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Því skora ég á okkur sem búum í Borgarbyggð að snúa við blaði og leita saman að því bragði er sætti þau ólíku sjónarmið sem uppi eru um framtíðarskipan skólamála í héraðinu. Hluti vandans er að sjá ekki fram í tímann en lykilatriði held ég að sé að setja fram spá um íbúa- og atvinnuþróun, gera áætlun um uppbyggingu þjónustu sveitarfélagsins á grundvelli slíkrar spár og freista þess að ná sem víðtækastri sátt og samvinnu um slíka sýn til langs tíma.

 

Finnbogi Rögnvaldsson

 

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is