Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
16. október 2015 13:59

Fjölgun barna í Borgarbyggð, er rétt að loka skólanum á Hvanneyri?

Í framhaldi af grein minni í Mogunblaðinu þann 24. september síðastliðinn um íbúaþróun í Borgarbyggð, þar sem spurt var hvort rétt væri hjá sveitarstjórn að minnka grunnþjónustu á Hvanneyri, vil ég renna yfir samskonar tölur yfir fjölgun barna á aldrinum 0 til 16 ára fyrir sömu svæði. Eins og þar kom fram var það hluti af rökum á íbúafundi þann 2. september að fjölgun íbúa héldi ekki í við meðalfjölgun á landsvísu. Það eitt og sér sem rök eða stuðningsrök vegna lokunar skóla geta hljómað hálf kjánalega þar sem fjölgun var í báðum tilfellum og því líklegt að byggja þurfi upp. Vísað var í hækkandi meðalaldur í sveitarfélaginu þessu til stuðnings og þarf því að skoða það til hliðsjónar.

 

 

 

 

Ef horft er á sama tímabil 1998-2015 yfir fjölgun barna þ.e. fyrir landsbyggðina annars vegar og Borgarbyggð og Hvanneyri hins vegar sést að svipaða sögu er að segja. Fjölgun barna á Hvanneyri er langt umfram landsmeðaltal og það sem meira er, börnum fækkar í Borgarbyggð. (Tölulegar upplýsingar eru fengnar af vef Hagstofu Íslands).

 

Fjöldi barna í Borgarbyggð fer úr 905 börnum niður í 819 sem styður þá hugleiðingu um að mögulega sé hægt að ná hagræðingu í menntamálum í sveitarfélaginu. En hvernig skal sú vinna fara fram og hvar er eðlilegt að stíga niður fæti. Á sama tíma og börnum fjölgar á Hvanneyri um 60% eða úr 51 í 80 börn á aldrinum 0 til 16 ára fækkar þeim í Borgarbyggð um 9%. En hvar á fækkunin sér stað? Miðað við framsetningu á títtnefndum fundi virðist fækkunin aðallega eiga sér stað í dreifbýli. Þegar rýnt er í tölur kemur hins vegar í ljós að í Borgarnesi fækkar börnum um 10% eða hlutfallslega meira en í Borgarbyggð sem heild.

 

Er eðlilegt að þéttbýliskjarni eins og Hvanneyri sem heldur uppi hlutfallslegri mestri fjölgun barna í sveitarfélagi útvegi öðrum skólum börn til rekstrar? Í dag eru börn frá Hvanneyri og nágrenni send að Kleppjárnsreykjum frá 5. bekk og uppúr. Í umræðunni er að öll börn á Hvanneyri verði í framtíðinni send í Borgarnes eða áfram að Kleppjárnsreykjum. Er ekki réttara að halda í þá þróun sem verið hefur á Hvanneyri og horfa á þann möguleika að hægt verði að byggja upp skóla fyrir alla bekki á Hvanneyri? Börn á skólaaldri á Hvanneyri eru um 45 í dag og koma til með að fjölga í um 60 börn á næstu 5 árum miðað við fjölda barna á aldrinum 0-5 ára. Að fimm árum liðnum verða að meðaltali 6 börn í árgangi, börn sem búa á Hvanneyri. Er þá bara verið að telja aukningu barna sem búa í þéttbýlinu. Það eru hins vegar 44 börn á leiksskólanum í dag og því líklegt að fjöldinn verði 85 börn eftir 5 ár.

 

Ef við horfum út frá meðaltalsfjölgun frá árinu 1998 þá má gera ráð fyrir að börnin á skólaaldri verði um 70 á Hvanneyri eftir 5 ár. Athugið að aftur eru þetta bara börnin í þéttbýlinu. Ef börnin í dreifbýlinu væru talin með þá verða þetta um 100 börn sem er talsvert meira en eru nú á Kleppjárnsreykjum og í Varmalandi. Þar eru 88 börn í hvorum skóla í dag.

 

Bent hefur verið á að samkennsla árganga hafi þroskandi áhrif á börn. Þau öðlist meiri samkennd og betri hæfni til mannlegra samskipta. Einnig liggur fyrir niðurstaða margra rannsókna um að fjöldi nemenda í bekk skipti máli þó sumir haldi öðru fram. Jafnvel talið að það hafi verulega jákvæð áhrif fyrir bekk að fjöldi á kennara sé á bilinu 13-18 og í því samhengi mikilvægast á yngri stigum. Einnig sem að kostnaður fyrir samfélagið til lengri tíma verði lægri vegna betri árangurs og þroska barnanna. Ein þessara rannsókna er Tennessee’s Student Teacher Achievement Ratio (STAR) sem er gríðarlega yfirgripsmikil rannsókn á þessu sviði. Rannsókn sem margir aðrir sem um málefnið fjalla styðjast við. Miðað við 100 krakka skóla frá 1.-10. bekkjar og samkennslu á milli tveggja árganga næst fram viðunandi hagræði, langtíma ávinningur kostnaðarlega ásamt umhverfi sem er þroskahvetjandi fyrir börnin. Hversu rétt er að þéttbýliskjarni haldi öðrum skólum gangandi með börnum sínum þegar sami kjarni getur með góðu móti verið með hagkvæmasta reksturinn og skapað besta umhverfið fyrir börnin sjálfur?

 

Samvæmt núverandi aðalskipulagi Borgarbyggðar þá á að byggja upp skóla á Hvanneyri. Er ekki rétt að sveitastjórnin taki nokkur skref til baka og skoði aftur þá mynd sem teiknuð var þegar það skipulag var sett fram? Þó að þrjú hjól séu undir bílnum, áfram höktir hann þó. Er ekki rétt að setja undir hann fjórða hjólið og halda ferðalaginu í átt að uppbyggingu áfram í stað þess að kippa undan öðru og leggja hann á hliðina?

 

Þar sem bíllinn er mættur vil ég fara aðeins yfir vegalengdir þar sem lítið hefur verið gert úr þeim í umræðunni. Innan sveitarstjórnar hefur því verið haldið á lofti að það muni ekki hafa mikil áhrif á uppbyggingu á Hvanneyri að loka skólanum. Að á Hvanneyri sé kraftmikið fólk og fallegt umhverfi sem dragi að. Vegalengdin á milli Hvanneyrar og Borgarness eru 14 km. og lítið mál fyrir börnin að ferðast á milli þessarar staða. Ég velti fyrir mér hvaða áhrif það hefði á Hveragerði ef ákveðið yrði að allt skólahald verði á Selfossi í framtíðinni. Vegalengdin þar á milli er svipuð og á milli Hvanneyrar og Borgarness. Reyndar fara börnin í 5.-10. bekk í skóla að Kleppjárnsreykjum eins og fram hefur komið, sem er 23 km. frá Hvanneyri. Væri þá hægt að velta upp hvaða áhrif það hefði á þróun byggðar í Grindavík ef skólahald barna þar yrði fært til Keflavíkur en það er álíka vegalengd á milli þessara staða. Enn fremur velti ég fyrir mér hvernig uppbygging hefði gengið í Grafarvogi ef að Breiðholtsskóli hefði verið hverfaskólinn fyrir það hverfi, þar á milli eru ekki nema 6,5 km. Eða kannski bara að allt skólahald grunnskóla í Reykjavík væri staðsett í Vesturbænum enda fáir Reykvíkingar búsettir í meira en 15 km. fjarlægð frá þeirri staðsetningu.

 

Skv. upplýsingum á vef vegaferðarinnar eru fjarlægðir á milli neðangreindra staða eftirfarandi:

 

Hvanneyri - Kleppjárnsreykir 23 km.

Grindavík - Keflavík 23 km.

Grundarfjörður - Ólafsvík 26 km.

Hvanneyri - Borgarnes 14 km.

Hveragerði - Selfoss 13 km.

Rimaskóli - Breiðholtsskóli 6,5 km.

Melaskóli - Rimaskóli 11,2 km.

 

Vandamálið er líklega ekki vegalengdin þegar allt kemur til alls. Heldur það markmið sem liggur að baki uppbyggingar á þéttbýliskjarna. Þar sem byggja skal upp þarf að vera grunnskóli, annars fer fjölskyldufólk bara eitthvað annað!

Hvanneyri er þéttbýli í örum vexti eins og tölurnar sýna. Það eru ekki vegalengdir sem eru viðmið þegar fólk velur sér búsetu í þéttbýli barna sinna vegna heldur þjónustustig nærsamfélagsins. Börnin eru framtíð okkar samfélags og verða að treysta á góða þjónustu í heimabyggð. Með uppbyggingu í takt við fyrirliggjandi aðalskipulag mun samfélagið á Hvanneyri blómstra og styðja við áframhaldandi uppbyggingu í Borgarbyggð.

 

Birgitta Sigþórsdóttir.

Höfundur er stjórnarmeðlimur í Íbúasamtökum Hvanneyrar og nágrennis

 

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is