Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
4. nóvember 2015 11:55

Ferðaþjónusta í fýlu?

Framtíðaruppbygging og möguleikar ferðaþjónustu hafa skyndilega skotið upp kollinum á Akranesi. Það var svo sem kominn tími til. Þessi bráðum að verða, eða orðinn,  stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar hefur af einhverjum ástæðum byggst upp með afar hægum hætti hér um slóðir. Engir eru betur í stakk búnir til uppbyggingar ferðaþjónustu á hverjum stað en heimamenn. Í því ljósi er líka auðvitað eingöngu við þá sömu heimamenn að sakast hversu hægt hefur gengið í þessari uppbyggingu.

 

Þá aftur að umræðunni um möguleika ferðaþjónustunnar. Því miður kviknaði sú umræða ekki vegna þess að stórkostlegar hugmyndir í ferðamálum hafi skotið upp kollinum. Ástæðan er sú að fyrirtæki eitt, sem nýverið tók við rekstri hausaþurrkunnar, hyggur á talsverðar endurbætur. Ætlar að taka til í kringum sig. Minnka sjónmengun og umfram allt stefnir að því að útrýma lyktarmengun af rekstrinum. Þá skyndilega rísa menn uppá lappirnar og telja það ógnun við framtíðarmöguleika ferðaþjónustu á Akranesi!

 

Ég er aðfluttur Skagamaður, vona ég að megi segja. Var svo heppinn að koma að, sem sveitarstjórnarmaður, markaðssetningu Ísafjarðarhafnar fyrir útgerðum skemmtiferðaskipa. Sú markaðssetning stendur ennþá yfir og er eilífðarmál en hún hefur tekist vel. Margir tugir skemmtiferðaskipa leggjast þar að bryggju árlega, nánast í miðbænum. Á upphafsárunum var helsta aðdráttaraflið frystihúsin, rækjuverksmiðjurnar, beitningarskúrarnir, skipasmíðastöðin og öll voru þessi fyrirtæki nánast í miðbænum og misjafnlega lyktandi. Það er mannlífið í öllum sínum fjölbreytileika sem laðar að ferðamenn.

 

Ég hef oft komið til Heimaeyjar. Sú hefur nú lyktað misjafnlega í gegnum tíðina. Ekki hefur það haft sýnileg neikvæð áhrif á vöxt ferðaþjónustunnar. Þar er í mikilli endurnýjun og stækkun hausaþurrkun, nánast í miðbænum. Þegar ég var þar á dögunum fór ég um með veitingamanni sem rekur veitingastað nánast við hlið hausaþurrkunarinnar. Hann hefur ekkert út á hausaþurrkunina að setja. Segir hana góðan nágranna. Þar hafa menn líka haft metnað til endurbyggingar og endurbóta líkt og vilji er til á Akranesi.

 

Ég bý nánast útí sveit. Á Víðigrundinni. Þeir eru ófáir dagarnir og næturnar sem ég finn ilminn frá atvinnurekstrinum í sveitinni. Stundum mikinn, stundum lítinn og sumir kalla ilminn fýlu. Ég keypti mitt hús vitandi að nágrannarnir fylgdu með í kaupunum ásamt því sem þeim fylgir. Minn næsti nágranni hefur að áhugamáli að reykja fisk og kjöt. Þá eru ilmandi góðir dagar.

 

Ég veit að það eru ekki alltaf ilmgóðir dagar á Neðri-Skaga, frekar en verið hefur um áratugaskeið. Ég hef unnið þar með hléum í nokkur ár. Ég þekki því nokkuð vel til og fullyrði að sumt af því sem sagt hefur verið um lyktarmengun þar er mjög orðum aukið og sum orð ekki til sóma sem þau létu falla. Framfarir eru handan við hornið líkt og gerðist í fiskimjölsiðnaðinum. Hvar stæðum við nú ef forystumenn HB í þá daga hefðu þurft að loka uppsjávarvinnslu vegna lyktarmengunar?  Vinnubrögð fortíðarinnar í hausaþurrkun mega ekki verða til þess að við höfnum framförum sem bjóðast.

 

Ferðamönnum hefur blessunarlega fjölgað á Akranesi. Er það aðallega vegna tveggja vita á Breiðinni og er að mestu eins manns verk. Þrátt fyrir hausaþurrkunina í næsta nágrenni.

Ferðaþjónusta byggist á jákvæðu hugarfari og bjartsýni þeirra er að henni standa. Akranes er ekki ósnortið náttúruundur. Það er kraumandi mannlífspottur sem ávallt verður gaman og eftirsóknarvert að sækja heim. Iðandi og stundum misjafnlega lyktandi atvinnulíf mun ekki spilla þar fyrir.

 

Halldór Jónsson.

Höfundur er áhugamaður um blómstrandi mannlíf

 

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is