Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
16. desember 2015 16:02

Endurskoðun skólastefnu Borgarbyggðar:

Raddir barna og ungmenna

 

Verið er að vinna að endurskoðun skólastefnu Borgarbyggðar og stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki með vorinu. Liður í þeirri endurskoðun er að leita eftir sjónarmiðum nemenda um skólagöngu sína. Voru kennarar í leikskólum og grunnskólum hvattir til að ræða eftirfarandi spurningarnar við nemendur í kennslustund:

 

1.         Hvernig finnst þér skólinn þinn?

2.         Hvað er skemmtilegast í skólanum? Hvað gengur þér best með?

3.         Hvað er leiðinlegast í skólanum? Hvað gengur þér verst með?

 

Svör nemenda veita kennurum innsýn í reynslu þeirra og upplifun. Voru svör nemenda tekin saman að umræðum loknum.

 

Börn í leikskólum

Í einum leikskóla unnu börnin verkefni um draumaleikskólann og fengu hugmyndir barnanna að njóta sín í þeirri vinnu. Meðal annars vildu börnin hafa rennibraut inni, trampólín, mikið af trjám, tækni-lego og marga kennara. Þau vildu hafa eldhús miðsvæðis og fá að taka þátt í eldamennskunni.  Einnig fannst þeim mikilvægt að hafa dýr, vatn og bát.

 

Í samtölum kennara og barna á leikskólunum kom fram að börnunum þótti skemmtilegt í leikskólanum og þeim fannst leikskólinn sinn flottur. Þau sögðust læra að leika sér öll saman, hlýða konunum og læra að vera stillt og prúð. Einnig sögðust þau læra að skrifa stafi og nöfnin sín. Börnin voru öll ánægð með leikskólann sinn, fannst hann fínn og gaman að leika í honum.

 

Það sem börnin töldu skemmtilegast að gera var að leika við vinina, úti og inni. Þeim fannst gaman að vinna með venjurnar sjö, vera þjónaleiðtogi og bókaleiðtogi. Einnig fannst þeim gaman að leika í listakrók, salnum, í búó og í sandkassanum. Best var að borða ávexti og þegar vinirnir voru að hjálpa hver öðrum.

 

Það sem börnunum á leikskólunum fannst leiðinlegast var þegar einhver í leikskólanum var að meiða aðra, henda sandi í mann og þegar verið var að skemma. Börnunum fannst leiðinlegt að vera úti í roki og rigningu og að labba í göngutúrum. Og ekki var gott að þurfa að leika einn.

 

 

Nemendur í grunnskólum

Í samtölum kennara við nemendur í grunnskólunum í Borgarbyggð koma fram að flestum nemendum fannst skólinn skemmtilegur og góður, að þar færi gott nám fram og námsefni væri fjölbreytt. Þeim fannst skólinn vera heilsueflandi, margir íþróttatímar, fjölbreyttur matur og mikið val. Einhverjum nemendum fannst skólinn ekki góður og frekar leiðinlegur. Þar væru of mikil læti, talað of mikið og skólinn í niðurníðslu. Aðrir höfðu orð á því að betra væri að vera í litlum skóla því þeir væru huggulegir og rólegir.

 

Nemendunum fannst skemmtilegast að fara í frímínútur og fótbolta, læra list- og verkgreinar, stærðfræði og ensku. Flestum fannst þeir fá góða hjálp við námið, að kennararnir væru skemmtilegir og að góður starfsandi ríkti í skólanum. Einnig væru vinirnir góðir og gaman í bakstri í heimilisfræði. Þeim fannst árshátíðin skemmtileg og gaman að búa til brandara.

 

Það sem helst má bæta í skólunum að mati nemenda var margföldunartaflan, frímínúturnar og að betri fyrirvari væri á verkefnaskilum. Þeim fannst hægt að stytta skólatímann, minnka heimanámið og hafa meira ljós, gott hljóð og betri mat. Einnig má koma upp sjálfsala í skólanum að þeirra mati, þaki á fótboltavöllinn og betri klósettherbergi. Þeim fannst þurfa að hafa sífellda gæslu, fleiri bækur og góðan matsal. Tryggja þarf að netsambandið virki og skipuleggja þarf sund og íþróttir vel. Það þarf að hafa fleiri valmöguleika í vali og vera ekki alltaf að nota heilhveiti í heimilisfræðinni. Að lokum fannst nemendum að fleiri ættu að hlýða kennurunum, minnka einelti í skólunum og að nemendur ættu að sýna meiri metnað í námi.

 

Sjónarmið nemenda munu vera höfð til hliðsjónar við endurskoðun skólastefnunnar og viðhorf foreldra, kennara og annars starfsfólks. Einnig mun skólastefnan taka mið af erlendri og innlendri stefnumótun í skólamálum.

 

Anna Magnea Hreinsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Borgarbyggðar

 

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is