6. janúar 2016 12:01
Krónan er góð!
Í okkar nágrannalöndum mun vera algengt að íbúðarlán séu með lágum eða lægstu vöxtum sem í boði eru á markaði hverju sinni.
Í frétt RÚV síðastliðinn sunnudag kom fram að algengir óverðtryggðir íbúðalánavextir á Íslandi séu 7,25% og fari hækkandi.
Gagnlegt er að skoða nýlega fréttatilkynningu HB Granda um lánskostnað vegna fjármögnunar nýrra togara, til þess að fá einhverja hugmynd um vaxtakostnað í nágrannalöndum okkar. Samkvæmt tilkynningunni sem dagsett er 30-12-2015 kemur fram að HB Grandi hafi fjármagnað þrjá nýja togar í samstarfi við Íslandsbanka og DNB Bank ASA. Vaxtakjörin eru tilgreind breytileg og meðalvextir 2,4%. Engin verðtrygging.
Samkvæmt þessu er himinn og haf á milli vaxta hér á landi og í okkar næstu nágrannalöndum.
Þeir sem lofa krónuhagkerfið ættu e.t.v. að skýra fyrir almenningi hverning þeir ætla að minnka þennan vaxtamun, því líklega mundi fátt bæta kjör almennings og um leið styrkja stöðu fyrirtækja meira, en lækkun vaxta í þessum dúr!
Síðan ættu stjórnmálamenn sem lofað hafa afnámi verðtryggingar og krónunni stöðugri og vöxtum lágum eftir afnám gjaldeyrishafta og niðurfellingu verðtryggingar, að skýra hverning það verði gert.
Borgarnesi, 4. janúar 2016.
Guðsteinn Einarsson.