Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
25. febrúar 2016 08:00

Sauðasálumessa og sauðsháttur

Ótrúlegir starfshættir tryggingafélaga hafa tíðkast hérlendis um langt skeið. Þar á ég við lymskulega tilburði til að fría sig bótaskyldu vegna tjóna sem búfénaður bænda veldur á bílum sem aka þjóðveg 1. Draga þau gjarnan upp úr pússi sínu áratuga gamlar samþykktir sveitarfélaga eins og Borgarbyggðar um lausagöngu búfjár, settar á tímum skorts á beitilöndum hjá fátækum bændum. Ær líta vel sprottnar vegaaxlir hýru auga og grasið er oftast grænna handan vegar. Það er með ólíkindum hvað lítið er gert úr hættu þeirri sem umferð búfjár getur skapað vegfarendum og þar á ég við tilburði bílstjóra við að forðast árekstra við dýrin. Svipta þeir stundum bílum sínum yfir á öfuga vegarhelminga án tillits til umferðar á móti.

Við tökum fagnandi móti erlendum ferðamönnum á bílaleigum landsins en gleymum að benda þeim á hætturnar samfara akstri á þjóðvegunum. Hættur sem þekkjast varla á þeirra heimaslóðum.

 

Það ætti að skylda sveitarfélögin sem leyfa lausagöngu búfjár utan þéttbýlissvæða á þjóðvegi 1 að merkja með skiltum hættusvæði þar sem rollur eru rétthærri en fólk og farartæki. Slíkar merkingar um villt dýr tíðkast erlendis. Þau tryggingafélög sem taka að sér að tryggja fénað bænda ættu jafnframt að ábyrgjast tjónið sem þau geta valdið fólki og farartækjum.

 

Að veifa fornum samþykktum um lausagöngu er að mínum mati sviðsettur sauðsháttur og þeim til skammar. Eigum við að halda áfram að þola bótalaust prjónandi hross á framrúðum bíla eða rollur í sjálfsvígshugleiðingum dauðvona á vélarhlífinni ? Trúa menn því virkilega að tilgangur samþykkta þess efnis að leyfa lausagöngu búfjár hafi verið til að gera kindur rétthærri en bíla á eina þjóðvegi landsins? Rökstutt með því að það sem er ekki bannað er leyft og fyrst það er leyft túlka tryggingafélögin það sem forréttindi búfjár umfram aðra vegfarendur. Þessi forréttindi búfjár eru áréttuð með vegalögum nr. 50/2007, sem eru að mínum mati ótrúlega heimskuleg og til þess fallin að gera akstur á þjóðvegi 1 lífshættulegan og aðeins tímaspursmál með aukinni umferð hvenær dauðaslysin verða. Er löggjafinn að bíða eftir slíkum atvikum til að fá tilefni til breytinga, ég spyr?

 

Tilefni þessa greinarkorns eru ítrekaðar uppákomur sem undirritaður hefur orðið fyrir á þjóðvegi 1. Fyrir um það bil einu og hálfu ári stökk hrossahópur í veg fyrir bíl minn í ljósaskiptum upp á þjóðvegi 1 á Kjalarnesi, rétt austan Sjávarhóla. Varð mér til ráða að nauðhemla og beygja út á rangan vegarhelming. Tilviljun réði að ekki kom bíll á móti á því augnabliki. Veit ég um fleiri ökumenn sem orðið hafa fyrir þessu hrossastóði á þessum slóðum. Í haust sem leið átti ég leið vestur í Dali og varð fyrir því óláni að aka á kind um 8 leytið að morgni í myrkri og slagviðri við Gufuá nálægt Borgarnesi. Þar átti ég engan kost annan en keyra yfir kindina. Rigningin þvoði blóðið af framrúðunni. Umtalsvert tjón varð á bílnum. Ærin reyndist tryggð en tryggingafélagið neitaði greiðslu bóta svo ég skaut málinu til úrskurðarnefndar vátryggingamála og greiddi fyrir kr. 6.000. Nú liggur þeirra álit fyrir: Ég á engan rétt á bótum samkvæmt lögum. Vil ég því ljúka sálumessu kindarinnar þannig: Þú varst drepin, ég gengst við drápi þínu. Þú ollir að minnsta kosti 100.000 kr. tjóni á bílnum mínum. Eigandi þinn var samt skráður tjónþóli í lögregluskýrslunni því þú varst svo falleg kind og verðmæt, svo glæsilega hyrnd. Því verðskuldar þú grafskrift við Gufuá:

 

Þú æddir áfram í vitlausu veðri

Í vanda sem engin kýs.

Hér þurftir að týna höfuðleðri

En holdið var tryggt hjá VÍS.

 

Ég sé þig ei framar á Sauðamessu

Slík urðu örlög þín.

Þú endaðir líf þitt í einni klessu

Einbeitta rollan mín.

 

Þorsteinn Ragnarsson 

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is