Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
2. mars 2016 14:12

Sporin hræða - um afdrif háskóla

Síðustu ár hafa háskólamál verið nokkuð til umræðu hér í Norðvesturkjördæmi samhliða þreifingum á sameiningu háskólanna – ýmist innbyrðis eða við Háskóla Íslands. Nú hefur fréttst að slíkum áformum hafi verið slegið á frest um sinn. Íbúar og forsvarsmenn háskólastofnana á svæðinu halda þó væntanlega áfram að hugleiða framtíðarmyndina í ljósi þróunar á öðrum svæðum. Nýlegir atburðir á Suðurlandi gefa tilefni þess að hugleiða hlutverk Háskóla Íslands á landsvísu, því vissulega hefur ákvörðun um flutning íþrótta- og heilsufræðináms frá Laugarvatni til Reykjavíkur markað spor sem hræða. Þar með tók Háskóli Íslands ákvörðun um að leggja niður einu háskólastofnunina á Suðurlandi.

 

 

 

Yfirlýst stefna Háskólans

Í 105 ára sögu sinni hefur Háskóli Íslands lengst af verið eini háskóli landsins, eins og nafnið gefur til kynna. Þess vegna hefur ekki aðeins verið litið á hann sem æðstu menntastofnun landsins heldur sem þjóðarháskóla – samfélagsstofnun sem Íslendingar hafa verið stoltir af.

Væntingar almennings til samfélagsstofnana á borð við Háskóla Íslands eru ekki sprottnar upp að ástæðulausu. Þær hafa komið til tals hjá yfirstjórnendum háskólans sjálfs, meðal annars annars í ræðu sem Páll Skúlason, þáverandi háskólarektor, hélt á Austurlandi árið 1999. Þar sagði Páll:

„Hlutverk Háskóla Íslands er og hefur alla tíð verið að þjóna allri íslensku þjóðinni. Háskólinn er þjóðskóli, sem vinnur jafnt í þágu þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og hinna sem búa úti á landi. Fræðastörf og þekkingarleit er ekki bara fyrir fámennan hóp fólks. Allt fólk sem vill bæta lífsskilyrði sín, treysta atvinnulíf, viðskipti og menningarlíf, hagnýtir sér í síauknum mæli alls konar fræði.“

Í þessum anda hefur Háskóli Íslands leitast við að „efla tengsl sín við landsbyggðina, m.a. með því að fjölga rannsókna- og fræðasetrum úti á landi,“ eins og fram kemur á heimasíðu skólans, enda hefur hann „ríkum skyldum að gegna við íslenskt samfélag, menningu og tungu,“ eins og segir á sama stað. Á þessu er hnykkt í stefnuáætlun Háskóla Íslands 2011-2016. Þar kemur fram að háskólinn hafi sett sér „markmið um rannsóknir og nýsköpun, nám og kennslu, mannauð og ábyrgð gagnvart samfélaginu og umheiminum“.

 

Í ljósi allra þeirra dæma sem nú hafa verið rakin úr hátíðaræðum og yfirlýstum stefnumiðum Háskóla Íslands má gera ráð fyrir að stjórnendur skólans geri sér fulla grein fyrir samfélagsábyrgð háskólans. Nýlegar ákvarðanir sem varða háskólastarf á Laugarvatni, benda þó ekki til þess að stefnumiðin séu stjórnendum skólans mjög hugleikin um þessar mundir.

 

Verkin sýna merkin

Háskóli Íslands hefur nú ákveðið að leggja af einu háskólastofnunina á Suðurlandi með því að flytja námsbraut í íþrótta- og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur, þar sem nú þegar er rekin íþróttafræðibraut við Háskólann í Reykjavík. Verði af fyrirhuguðum flutningi munu því tvær íþróttafræðibrautir verða í Reykjavík, en engin úti á landi. Hins vegar munu nemendur af landsbyggðinni, sem hafa sótt nám á Laugarvatni, þurfa að fara til Reykjavíkur með verulega auknum húsnæðiskostnaði sem því mun fylgja.

 

Ákvörðunin er tekin í trássi við vilja og stefnu stjórnvalda og Alþingis. Mótbárur þingmanna virðast hrökkva af háskólaráðinu eins og vatn af gæs. Einstaka prófessorar og fræðimenn hafa meira að segja látið í ljós vanþóknun í fjölmiðlum yfir því að ráðherrar og þingmenn séu yfirleitt að hafa skoðun á málinu. Er helst á þeim að skilja að það sé argasti dónaskapur við faglega niðurstöðu menntastofnunar.

 

Helstu rök háskólans fyrir því að flytja íþrótta- og heilsufræðina frá Laugarvatni til Reykjavíkur, og ljúka þar með merkri 84 ára sögu skólans á Laugarvatni, munu vera fækkun nemenda og kostnaður við að halda úti námi á Laugarvatni. Til grundvallar liggja tvær skýrslur sem háskólinn mun hafa látið gera um „sóknarfæri“ þessa námsframboðs.

Málsvarar háskólans hafa látið að því liggja að nemendafækkunin stafi af staðsetningunni á Laugarvatni. Jafn líklegt er þó að fækkunina megi rekja til þess að fyrir fáum árum var kennaranámið og íþróttakennaranámið lengt úr 3 árum í 5 ár. Eftir það hefur nemendum í kennaranámi fækkað í öllum deildum, bæði á Laugarvatni og í Reykjavík.

 

Vitanlega er ekki ásættanlegt að Háskóli Ísands leggi þannig af þjónustu sína við heilan landshluta, með þeim alvarlegu afleiðingum sem það mun hafa fyrir landshlutann allan, án þess að stjórnvöld reyni að sporna við fæti. Bent hefur verið á að stjórnendum námsins hafi ekki gefist færi á að rétta úr kútnum og mæta nemendaþróuninni, til dæmis með breytingum og endurbótum á námsfyrirkomulaginu eins og gert var við leikskólakennaranámið á sínum tíma þegar sókn í það var sem slökust.

Það yrðu sorglegar málalyktir ef endi yrði bundinn á 84 ára sögu íþróttakennaranáms á Laugarvatni fyrir tilverknað Háskóla Íslands, skólans sem Páll Skúlason lýsti sem „þjóðskóla“ í þágu landsins alls. Óhjákvæmilega veltir maður því fyrir sér hvað bíði háskólastofnana í Norðvesturkjördæmi fari svo að þær verði sameinaðar Háskóla Íslands.

Það kostar að reka samfélag og því fylgja skyldur. Þá kvöð verðum við öll að bera, bæði einstaklingar og stofnanir. Ríkust eru þó skylda þeirra stofnana sem byggðar hafa verið upp fyrir almannafé og eru í eigu samfélagsins, eins og Háskóli Íslands. Það er ekki nóg að setja fjálglega orðuð stefnumið inn í markmiðslýsingar á vel hönnuðum heimasíðum. Skattgreiðendur sem standa undir rekstri Háskóla Íslands eru í öllum landshlutum, ekki bara í Reykjavík.

 

Dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.

Höfundur er alþingismaður og fv. verkefnisstjóri við Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands.

 

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is