Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
22. mars 2016 09:05

Að velja á milli velferðar íbúanna og hagsmunaafla peninganna

Eftir brottrekstur frá Innri-Njarðvík árið 2003 vegna ólyktar kom Laugafiskur til Akraness með loforð um lyktarlausa verksmiðju og með leyfi frá bæjarfulltrúum Akraness. Fljótlega kom í ljós að ekkert af því sem lofað var stóðst og miklar deilur urðu á milli bæjarfulltrúa/heilbrigðisnefndar/HEV, annars vegar og íbúanna sem urðu að búa við þessa ólykt.

 

Ekkert vantaði upp á stóru loforðin um úrbætur frá fyrirtækinu, bæjarfulltrúum, heilbrigðisnefnd og HEV á árunum 2003 til 2008 og var meðal annars sett upp tilraunastofa í gámi fyrir utan fyrirtækið til að finna lausn á þessari fýlu sem stafaði frá starfseminni. Fengnir voru til verksins helstu sérfræðingar landsins á þessu sviði frá Ransóknarstofnun fiskiðnaðarins/Matís til að finna bestu fáanlegu tækni til að vinna á fýlunni. Í stuttu máli þá var aðal töfralausnin ÓSON gas sem var blandað saman við vinnsluferlið. Niðurstaða þessara sérfræðinga var að eftir uppsetningu svona búnaðar þá yrði þetta mjög viðunandi fyrir íbúana í nágrenni við þessa starfsemi. Þessi búnaður var settur upp hjá fyrirtækinu og því veitt nýtt starfsleyfi árið 2008 á þeim forsendum (í óþökk við íbúana þrátt fyrir kröftug mótmæli og kæruferli). Öll vitum við að frá þeim tíma hefur ástandið verið „óviðunandi“ eins og oft hefur komið fram á opinberum vettvangi. Núna árið 2016 er búið að setja upp annan gám fyrir utan verkunina til að gera tilraunir sem HB Grandi sér um í þetta sinn og að sögn sérfræðinga HB Granda þá lofar þetta bara góðu, gallinn er bara sá að við sem búum við þetta höfum ekki orðið vör við betra ástand. Þetta er bara sama gamla sagan, það á sem sé að endurtaka ferlið frá árunum 2003 - 2008 taka enn einn hring og halda því svo fram að þetta sé alveg að koma, bara smá bið á því.

 

Laugafiskur hefur fengið að starfa nánast óáreitt í 15 ár og án nokkurra áminningar frá eftirlitsaðilum. Þrátt fyrir að allir séu sammála um að ástandið sé óviðunandi og að húsnæðið við Vesturgötu er og hefur verið óhæft til vinnslu á matvælum og þrátt fyrir að húsnæðið við Breiðargötu 8 uppfylli alla þá staðla um þéttleika húsnæðis sem eru fyrir svona vinnslu og er með besta fáanlegan búnað (óson) þá kemur megn fýla frá vinnslunni þar.

 

Og hver er þá lausnin? Jú, þá er lausnin að leyfa stækkun á vinnslunni úr 170 tonnum á viku í 600 tonn á viku í áföngum. Fyrst að stækka úr 170 tonnum í 300 tonn og ef það tekst sæmilega þá á að stækka í 600 tonn. Þetta á að gera þó svo að engin trygging sé fyrir því að íbúar verði ekki fyrir áframhaldandi óþægindum af völdum ólyktar. Allir aðilar sem hafa gefið umsögn um þessa starfsemi eru sammála því að ekki séu til lausnir sem gera þessa starfsemi lyktarlausa. Í umhverfisskýrslu HB Granda kjósa þeir frekar að kalla þessa fýlu „dauf lykt eða miðlungs óþægileg“. Er ekki einhver að djóka í okkur, hvenær getur vond lykt verið dauf eða miðlungs óþægileg, er ekki vond lykt bara vond lykt alveg sama hvort hún er dauf eða miðlungs óþægileg, á það bara að vera ásættanlegt (viðunandi) að það verði alltaf einhver óþolandi daunn heima hjá okkur frá Laugafiski?

 

Hvað er 15 ára saga Laugafisks á Akranesi búin að kenna okkur? Jú, það er nefnilega þannig að ef þetta tekst ekki þá er ekkert í lögum eða reglugerðum sem getur komið í veg fyrir að fyrirtækið starfi áfram í óþökk íbúana á svæðinu, eða með öðrum orðum þá getur enginn stöðvað svona starfsemi. Þá erum við komin að kjarna málsins en hann er sá að ef fyrirtækið fær að byggja upp nýja stækkaða vinnslu fyrir tugi eða hundruðir milljóna þá segir mér sagan að því verður ekki lokað með pennastriki á einum degi eða á einu ári. Ætlar einhver að reyna að halda því fram að hluthafar HB Granda fari í slíkar fjárfestingar bara til þess að loka einu ári síðar. Það er ekki að gerast jafnvel þó fyrirtækið heitir HB Grandi og er einstaklega gott fyrirtæki alveg eins og Brim (sem átti Laugafisk til loka ársins 2013) og Lýsi sem á sambærilega verksmiðju í Þorlákshöfn og hefur núna eftir 20 ára starfsemi inni í íbúabyggðini ákveðið að ekki sé íbúunum bjóðandi upp á slíkt lengur og hefur í samráði við bæjaryfirvöld ákveðið að færa starfsemi Lýsis þrjá kílómetra út fyrir íbúabyggðina.

 

Hver er lausnin sem þetta fólk býður okkur íbúum á Akranesi upp á núna? Jú, hún er aftur sú sama: Gamla góða „óson“ aðferðin með einhverri tilfallandi tilraunastarfsemi sem sérfræðingar HB Granda eiga að framkvæma og finna út úr.

 

 

Óson

 

En hvað er óson? Hér er lýsing á skaðsemi ósons sem er að finna á vef Umhverfisstofnunar:

„Óson veldur plöntuskaða og áhrif þess á öndunarveg fólks eru talin óheilnæm. Þannig er talið að óson auki tíðni astmatilfella, orsaki ertingu í nefi og augum, valdi óþægindum fyrir brjósti, höfuðverkjum, velgju og hósti ágerist. Einnig er talið að það dragi úr öndunarvirkni hjá heilbrigðum einstaklingum auk þess sem viðnám lungna við sjúkdómum minnkar og geti undir langvarandi álagi valdið varanlegum lungnaskemmdum.”

Það á sem sé að bjóða okkur íbúunum upp á viðvarandi ólykt (miðlungs óþægilega eða daufa) og heilsuskaða í komandi framtíð. Takk fyrir.

 

Eitthvað hefur verið ritað um það að við íbúar eigum að bera traust til fyrirtækja og treysta því að þetta verði bara lagað, en í ljósi reynslunnar hér á Akranesi og annars staðar í þessu máli þá held ég að engin geti farið fram á slíkt af einhverri sanngirni. Þessu er jú búið að lofa okkur í yfir 15 ár og núna af því að það er komið nýtt félag sem á þessa starfsemi þá er því haldið fram að þetta verði bara í lagi jafnvel þó svo að engar vísindalegar rannsóknir liggi fyrir um það og enginn sem framleiðir mengunarvarnabúnað fyrir svona starfsemi vilji skrifa undir það að engin ólykt komi frá honum.

 

Fyrir mér lítur þetta bara út fyrir að vera sama græðgisvæðingin og hjá bankastofnunum í landinu. Þetta snýst fyrst og fremst um hagsmuni þeirra sem mögulega geta gert sér peninga úr þessari stækkun og þess vegna er allt í lagi að taka áhættu á því að þetta bara reddist og ef ekki þá er þetta „money in the pocket“ fyrir suma.

 

Á lang flestum stöðum í landinu þar sem svona starfsemi er þá er mikill óánægja frá íbúunum sem búa við slíkt ástand og fjöldinn allur að kvörtunum hefur verið lagður fram í viðkomandi sveitafélögum. Dæmi er um að svona starfsemi er færð fjær íbúðabyggð vegna þess að engin lausn er til sem gerir þessar vinnslur lyktarlausar.

 

Við íbúar sem höfum mátt búa við skerðingu á lífsgæðum vegna lyktarmengunar í 15 ár erum búin að margbenda á það að skynsamlegast í stöðunni sé að færa þessa starfsemi fjær íbúabyggð á Akranesi. Það verður að segjast eins og er að það kemur mér virkilega á óvart að fólk hér á Akranesi sé tilbúið að taka séns á því að hafa þessa ólykt í íbúabyggðinni langt inn í framtíðina. Ég átti ekki von á því að í þessu litla samfélagi okkar væri til fólk sem telji peningahagsmuni örfárra atvinnurekanda hærri en velferð íbúanna sem þurfa að búa við þessi ósköp.

 

Langar að lokum að biðja alla íbúa á Akranesi sem er sammála okkur að fara á vef http://betraakranes.org og skrifa á undirskriftalistan, þinn stuðningur hjálpar í þessu máli.

 

Með bestu kveðju,

Guðmundur Sigurðsson, f.h. íbúa á Bakkatúni 4 á Akranesi.

 

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is