17. mars. 2010 10:02
„Þetta er nú bara Ford,” sagði Gísli Jónsson, verktaki og bílstjóri á Akranesi þegar hann var spurður að því á föstudaginn hvaða farartæki hann væri með á palli bílaflutningabíls síns. „Ég keypti þennan bíl suður á Álftanesi og þar var hann nokkurs konar auglýsing fyrir veitingastað.” Gísli sagðist ekkert vita hvað hann ætlaði að gera með bílinn. “Þetta er nú svolítið undarleg árátta að kaupa svona lagað,” sagði hann og hló. Með Gísla að ná í bílinn suður á Álftanes var Guðni Kristinn Einarsson. Hann sagði bílinn vera 1931 módel og því væri hann að verða áttræður. Hann hefði verið fluttur til landsins frá Bandaríkjunum árið 2007 og væri vel gangfær.