24. apríl. 2010 10:25
Slökkviliðsmenn víðsvegar úr Borgarfirði luku nú á ellefta tímanum í kvöld að slökkva sinueld sem logað hefur glatt frá því síðdegis í dag í flóanum milli bæjanna Lindarhvols og Hallar í Þverárhlíð og Hjarðarholts í Stafholtstungum. Um tíma var óttast að við eldinn yrði ekki ráðið og hann næði að bæjarhúsum og jafnvel vestur fyrir holtin og í Varmaland. Allt tiltækt lið slökkviliðsmanna ásamt bændum tókst með samstilltu átaki að einangra eldinn og slökkva, að sögn Bjarna Kr Þorsteinssonar slökkviliðsstjóra.
Bjarni segir talsvert mikið hafa verið um sinuelda í vor í umdæmi sínu. Segist hann setja spurningamerki við ágæti þess að leyfa að kveikt sé í sinu yfirleitt. Oft verði af sinubrunum mikið bál og meira en menn ráða við, einkum á þeim jörðum sem lítið eða ekkert er af skepnum og því mikill eldsmatur. Þá segir Bjarni nauðsynlegt að taka tillit til veðurspár og þess hversu þurr jörðin er þegar kveikt er í.