01. júlí. 2010 07:01
 |
Húsinu var komið fyrir sl. mánudagskvöld. |
Stangveiðifélag Borgarness hefur tekið á leigu spildu fyrir veiðihús í landi Hraunholta í Kolbeinsstaðarhreppi. Landinu fylgir leyfi til stangveiða fyrir félagasmenn í Hlíðarvatni. Veiði í vatninu hefur verið ágæt síðustu árin og það sem af er sumri hefur ágætur fiskur verið að fást þrátt fyrir að vatnsstaðan sé lág. Síðasta mánudag var farið með nýtt 32 fermetra veiðihús að vatninu. Í því er ágæt aðstaða og fleti fyrir 7 manns. Húsið var byggt af félagsmönnum í SVFB að öllu leyti. Að sögn Þórarins Sigurðssonar formanns veiðifélagsins ganga félagsmenn SVFB fyrir um leigu á húsinu en utanfélagsmenn geta auk þess fengið húsið leigt. Þeir sem vilja kaupa veiðileyfi hafi samband við Arnar Sigurðsson í síma 617-5303. Búið er að nefna húsið og heitir það Jónsbúð í höfuð yfirsmiðsins Jóns J Sigurðssonar.