07. júlí. 2010 01:01
Bændur á Vesturlandi eru almennt ánægðir með heyfeng það sem af er sumri. Nú eru nokkrir þeirra búnir með fyrri slátt og margir langt komnir. Einkum eru það þeir sem báru á tún sín snemma í maí sem fengu góða uppskeru í fyrri slætti, en þurrkar drógu úr sprettu þar sem áburður náði ekki að leysast upp og gera gagn þegar leið á maímánuð. Að sögn Sigríðar Jóhannesdóttur framkvæmdastjóra Búnaðarsamtaka Vesturlands hefur enginn bóndi kvartað undan lítilli sprettu í hennar eyru. “Sumir bændur t.d. í uppsveitum Borgarfjarðar hafa sagt mér að feyknagóð spretta hafi verið hjá þeim fyrir fyrri slátt. Almennt eru menn ánægðir bæði með tíðarfarið og sprettuna,” segir Sigríður.
Haraldur Benediktsson bóndi í Vestri Reyni og formaður BÍ segir að almennt sé gott hljóð í bændum landsins. “Tíðarfar hefur verið svo gott að það hefur allt sprottið vel, bæði trjágróður og gras. Helst hef ég heyrt menn bera sig illa yfir yfirvofandi vatnsskorti enda er grunnvatnsstaða orðin lág sem sýnir sig meðal annars í vötnum á Snæfellsnesi. Spretta hefur víðast hvar á landinu verið góð og útlit fyrir mikla uppskeru og er það vel,” sagði Haraldur sem sjálfur er í hópi þeirra sem búnir eru með fyrri slátt.