09. júlí. 2010 10:11
Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðar í gær var ákveðið að ráða Björn Steinar Pálmason í starf bæjarstjóra. Björn Steinar er Grundfirðingum að góðu kunnur, en hann starfaði sem skrifstofustjóri Grundarfjarðarbæjar í fjögur ár, frá 2003 – 2007 og var þá jafnframt staðgengill bæjarstjóra. Hann er viðskiptafræðingur og sagnfræðingur að mennt, með alþjóðlega vottun í verkefnastjórnun. Hann gegnir nú stöðu sérfræðings í innri endurskoðun hjá Byr sparisjóði. Eiginkona hans er Johanna Elizabeth Van Schalkwyk og munu þau ásamt tveimur dætrum flytja til Grundarfjarðar fljótlega, en væntanlega skýrist á næstu dögum hvenær Björn Steinar getur hafið störf, segir í tilkynningu frá Grundarfjarðarbæ.