12. júlí. 2010 12:38
Svanhildur Anna Sveinsdóttir á Akranesi fékk fyrir rúmum tveimur mánuðum sérþjálfaðan leiðsöguhund sér til halds og trausts. Eins og fram kom í ítarlegu viðtali við Svanhildi Önnu í Skessuhorni í apríl sl. er hún heyrnar- og sjónskert og þjáist auk þess af jafnvægisleysi í kjölfar heilaæxlis sem hún var með. Í byrjun maí fékk Svanhildur Anna labradorhundinn Exo sér til halds og trausts, en Exó er fimm ára gamall þrautþjálfaður leiðsöguhundur. Þar sem Svanhildur Anna býr í blokk þurfti hún leyfi nágranna sinna til að fá hundinn. Leyfið fékkst til bráðabirgða til 1. nóvember nk. En nú er komið babb í bátinn. Í viðtali við RUV í gærkvöldi lýsir Svanhildur Anna því að nýr íbúi hafi komið í eina íbúð fjölbýlishússins sem hún býr í og sá vilji ekki hafa hund í húsinu.
Þar sem hún hefur einungis tímabundið leyfi til að hafa hundinn í húsinu hefur hún sett íbúðina á sölu, en án árangurs enn sem komið er. Í viðtalinu lýsir Svanhildur vanlíðan sinni vegna þeirrar óvissu sem hún stendur frammi fyrir.