27. júlí. 2010 11:21
Tíu leikir fara fram í þriðju deild karla í knattspyrnu í kvöld. Þar á meðal leika Vesturlandsliðin Skallagrímur og Grundarfjörður sitthvorn útileikinn en bæði lið leika í C riðli. Skallagrímur fer lengst eða norður á Sauðárkrók þar sem liðið mætir Tindastóli. Tindastóll er á toppi riðilsins með 21 stig en Skallagrímur er í því þriðja með 15 stig. Það má því búast við hörkuleik á Sauðárkróksvelli en síðast þegar liðin mættust fór leikurinn 3-2 Skallagrími í vil. Grundarfjörður mætir síðan KB á Leiknisvelli í Reykjavík. KB er í öðru sæti riðilsins með 18 stig en Grundarfjörður hefur átt erfitt uppdráttar, er í næst neðsta sæti með fimm stig. Síðast er liðin mættust á Grundarfjarðarvelli bar KB sigur af hólmi 1-4 svo Grundfirðingar mega búast við erfiðum leik í kvöld. Báðir leikir hefjast klukkan 20.