16. ágúst. 2010 11:39
Vesturlandsliðin í C-riðli 3. deildar töpuðu bæði leikjum sínum í síðustu umferð sem fram fór fyrir helgina. Skallagrímur lá 0:3 fyrir KB í Breiðholtinu og Grundfirðingar töpuðu 1:2 þegar Ýmismenn sóttu þá heim.
Skallagrímsmenn misstu við tapið endanlega af möguleikanum að komast í úrslitakeppnina, en þangað fara KB og Tindastóll. Þegar ein umferð er eftir er Skallagrímur með 18 stig í þriðja sætinu, en Tindastóll er í efsta sæti riðilsins með 30 stig og hefur lokið sínum leikjum. Í síðustu umferðinni sem fram fer um næstu helgi fær Skallagrímur Ýmismenn í heimsókn en Grundfirðingar sækja Augnablik heim í Kópavoginn. Með sigri myndu Grundfirðingar hafa sætaskipti við Kópavogsliðið, en UMFG er í neðsta sæti með fimm og Augnablik þar fyrir ofan með sjö.