17. ágúst. 2010 08:01
Atvinnurekendur og starfsmenn þeirra sem vinna við byggingastarfsemi, mannvirkjagerð, rekstur gististaða og veitingarekstur skulu nú bera vinnustaðaskírteini við störf sín. Þessar reglur tóku gildi 15. ágúst síðastliðinn og eru samkomulag Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Á vef VLFA er greint frá þessu. Þar segir að atvinnurekandi skuli sjá til þess að starfsmenn fái vinnustaðaskírteini þegar þeir hefji störf. Atvinnurekandi og starfsmenn hans skulu bera skírteini á sér og vera reiðubúnir að framvísa þeim, sé þess óskað af eftirlitsfulltrúa. Með atvinnurekanda er einnig átt við sjálfstætt starfandi einstaklinga.
Á vinnustaðaskírteini skal meðal annars koma fram nafn og kennitala viðkomandi starfsmanns ásamt mynd. Starfsheiti er valkvætt. Ef starfsmaður erlends þjónustufyrirtækis er ekki með íslenska kennitölu skal skrá fæðingardag og ár. Þá skal jafnframt koma fram nafn og heiti atvinnurekanda eins og það er skráð í fyrirtækjaskrá (eða heiti starfsmannaleigu eins og það er skráð hjá Vinnumálastofnun).
Atvinnurekandi er ábyrgur fyrir gerð vinnustaðaskírteinisins og þeim upplýsingum sem þar koma fram. Hann er ekki bundinn við tiltekið form eða útlit svo lengi sem skírteinið uppfyllir skilyrðin hér að framan. Þá er í samkomulaginu kveðið á um sektir geti starfsmaður ekki framvísað skírteini. Við ítrekað brot geta fjársektir numið allt að 100 þúsund krónum á dag.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á skrifstofum verkalýðsfélaga eða á heimasíðunni www.skirteini.is