19. ágúst. 2010 04:27
Ferðamálastofa auk markaðsstofa landshlutanna taka nú þátt í Menningarnótt í Reykjavík í fyrsta sinn. Íslandstjaldið verður einn af meginpunktum hátíðarinnar og þar mun setning Menningarnætur fara fram á laugardaginn. Íslandstjaldið verður staðsett við Geirsgötu 9, sem margir þekkja sem Hafnarbúðir. Í tjaldinu kynna markaðsstofur landshlutanna haust- og vetrardagskrá á sínu svæði, bjóða upp á fjölbreytta skemmtidagskrá og sýna ýmislegt áhugavert eins og handverk og listmuni, ullarfatnað, ljósmyndir, matvæli og snjóbyssu, svo nokkuð sé nefnt. Meðal annars munu listamenn mála sinn fermetra í listaverkagjörningi sem nefnist Ísafold. Verkið verður sjö metra langt landslagsmálverk unnið af jafn mörgum listamönnum. Fulltrúi Vesturlands verður Bjarni Þór Bjarnason listmálari á Akranesi.
Vinnan við gjörninginn hefst kl. 13.00 og stendur til kl. 20.00. Bjarni Þór verður því að mála á laugardagskvöldinu milli kl. 19 og 20.
Setningarathöfn í tjaldinu verður kl. 13. Þá mun Höfuðborgarstofa ríða á vaðið, þá Suðurnes, Suðurland, Austurland, Norðurland, Vestfirðir og að endingu Vesturland. Dagskrá hvers landshluta stendur í klukkustund og er lofað fjölbreyttri dagskrá. Gestir og gangandi eru hvattir til að leggja sitt af mörkum við verkið.