27. ágúst. 2010 10:01
Ferðamálastofa, auk markaðsstofa landshlutanna, tók nú þátt í Menningarnótt í Reykjavík í fyrsta sinn. Íslandstjaldið var einn af dagskrárliðum hátíðarinnar en þar var m.a. setning Menningarnætur. Í tjaldinu kynntu markaðsstofur landshlutana haust- og vetrardagskrá á sínu svæði, buðu upp á fjölbreytta skemmtidagskrá og sýndu ýmislegt áhugavert eins og handverk og listmuni, ullarfatnað, ljósmyndir, brúðuleik, matvæli og snjóbyssu, svo nokkuð sé nefnt. Fulltrúar Vesturlands í kynningarbási voru m.a. Guðrún Bjarnadóttir á Hvanneyri, Rita Freyja Back úr Borgarnesi, Heba Soffía Björnsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Vesturlands og Bernd Ogrodnik sem sýndi frábær atriði með brúðuleik. Þá máluðu listamenn sinn fermetra í listaverkagjörningi sem nefndist Ísafold. Verkið er sjö metra langt landslagsmálverk unnið af jafn mörgum listamönnum. Fulltrúi Vesturlands var Bjarni Þór Bjarnason listmálari á Akranesi.