02. september. 2010 09:48
Sparisjóður Suður-Þingeyinga er dæmi um smáa fjármálastofnun sem starfar þó af myndugleik. Markmið eigenda og stjórnenda sjóðsins er og hefur verið að standa þétt við bakið á viðskiptavinum sínum á ákveðnu markaðssvæði, en viðskiptavinum víðsvegar af landinu fjölgaði þó mikið í bankahruninu þar sem í ljós kom að sjóðurinn var ein fárra fjármálastofnana sem skilaði hagnaði um það leyti sem margir bankar fóru í þrot eða áttu í miklum rekstrarvanda. Sjóðurinn hefur aðalstöðvar sínar á Laugum í Reykjadal en útibú í Reykjahlíð og Húsavík. Hagnaður af rekstri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga nam 40 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins, en rúmlega 31 milljón króna eftir skatta.